141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Menn geta meira að segja deilt um þetta síðasta, faglegt þetta og faglegt hitt. Þegar hagfræðingar eru kallaðir til hafa þeir svo mismunandi skoðanir á landsmálum að þeir eru nánast alltaf pólitískir. Þeir flagga fána fagmennskunnar þótt þeir hafi í raun pólitískar skoðanir. Auðvitað vill maður að þetta sé faglegt en ég ætla ekki að gefa því allt of mikið vægi.

Varðandi aðalfundinn til eins árs þá þarf ég að skoða hlutafélagalögin en ég held að það megi kjósa stjórn til allt að fimm ára. Ég geri ráð fyrir að hv. nefnd, hér eru tveir nefndarmenn viðstaddir, fari í gegnum þetta og skoði. Ef meiningin er að stjórnin sé kosin til eins árs finnst mér alveg sjálfsagt að um það sé getið í lögunum, ekki bara tilgreint að valnefndin tilnefni til tveggja ára. Þá kemur reyndar upp dálítið skemmtileg staða vegna þess að valnefndin tilnefnir til tveggja ára og ráðherrann sem mætir væntanlega sem eini hluthafinn á aðalfundi sem hann heldur heima hjá sér í stofunni eða eldhúsinu því að hann heldur bara fundi hvar sem honum dettur í hug, hann er einn og ekkert meira ... (Menntmrh: Það verður að vera pláss fyrir alla hina.) Nei. (Menntmrh: Jú, þetta er opinbert fyrirtæki.) Ókei, það er opinbert, (Gripið fram í.) það er rétt, þingmenn eiga rétt á að mæta þannig að það þarf stofuna, ráðherra þarf að bjóða mér inn í stofu en hann hefur einn atkvæðisrétt.

Þeir fjölmiðlar sem ég horfi mikið á eru reyndar almennir fjölmiðlar, (Menntmrh: Já.) borgaðir af þýskum skattgreiðendum að mestu leyti og breskum, en ég horfi líka töluvert á erlenda einkafjölmiðla og les erlend tímarit og fæ þar aðra hlið á málinu. Ég held að ég fái nokkuð góða mynd af heiminum þannig. (Gripið fram í.)