141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ræddi þetta meira fræðilega séð, en það er alveg á hreinu að 18 þúsund kallinn verður ákveðinn á hinu háa Alþingi, sennilega einu sinni á ári. Það þarf að hækka gjaldið í takt við verðbólgu, verðlag og slíkt og þar með er afkoma Ríkisútvarpsins ákveðin. Þar með er starfsmannafjöldinn ákveðinn og þar með er ákveðið hvort skera þarf niður eða ekki, þar með er ákveðið hvort starfsmönnum verður sagt upp eða ekki eða nýir ráðnir. Þetta vita náttúrlega allir. Ég reikna með því að fréttamenn séu frekar siðlegir og siðlegri en flestir en ég ætla þeim ekki ofurmannlega eiginleika. Þeir vita þetta. Sérstaklega skiptir þetta máli í hörðu ári eins og núna þegar fjöldi manns flyst til útlanda og atvinnu skortir. Meðan verið er að skera niður á spítölunum, segja upp fólki og auka kröfur á fólkið, láta það vinna meira o.s.frv., getur verið ágætt að fá bara peninga með hækkuðu útvarpsgjaldi úr 18 þús. kr. upp í 22 þús. kr. eða eitthvað slíkt. Þetta vita menn og þeir vita hver tekur ákvörðun um þetta.

Svo getur vel verið að menn hafi draum um að til sé fólk í heiminum, og það er eflaust til, sem kallast hugsjónamenn. Þeir ganga jafnvel mjög langt í því, í hugsjónum sínum, að fara gegn eigin hagsmunum. Það getur vel verið að fréttamenn hjá RÚV séu slíkir hugsjónamenn að þeir láti þetta ekki trufla sig í störfum sínum og þó að ráðherra segi í viðtölum að hann þurfi hugsanlega að lækka þennan 18 þúsund kall hafi það ekki áhrif á starfsmennina í gagnrýni á ráðherrann.