141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:53]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en hann svaraði þó ekki spurningunni. Ég tel mjög mikilvægt að fá fram í þessari umræðu hvort hv. þm. Pétur H. Blöndal sé að halda því fram að fréttamenn hjá Ríkisútvarpinu hagi fréttaumfjöllun sinni með tilliti til þess að ríkisframlagið stendur undir verulegum hluta af tekjum Ríkisútvarpsins. Með öðrum orðum að fréttaumfjöllun þeirra sé lituð af því að persónulegir hagsmunir þeirra séu að fjárveitingavaldið á Alþingi líti með velþóknun á umfjöllun Ríkisútvarpsins. Ég vona að hv. þingmaður átti sig á því að hann vegur mjög alvarlega að starfsheiðri fréttamanna hjá þessari stofnun ef þetta er hans skoðun.