141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

úrsögn úr þingflokki.

[10:32]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Í morgun átti ég fund með hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, formanni Samfylkingarinnar, þar sem ég greindi henni frá því ásamt þingflokksformanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Magnúsi Orra Schram, að ég hygðist segja mig úr þingflokki Samfylkingarinnar og ganga til liðs við Bjarta framtíð hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar og starfa með honum fram að kosningum.

Ég greindi jafnframt frá því að ég mundi styðja ríkisstjórnina fram að kosningum eins og ég hef verið kjörinn til, en um ástæður þessa vil ég segja þetta:

Ég tel að komandi kjörtímabil feli í sér gríðarleg tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Við stöndum ótrúlega vel miðað við það sem á undan er gengið, komin út úr kreppunni, og við höfum tækifæri til þess núna að stokka upp flokkakerfið, koma með nýja nálgun inn í það hvernig við vinnum stjórnmálin og ég held að það sé tími til kominn að við freistum þess að nálgast hlutina með öðrum hætti en við höfum hingað til gert, með því að ræða saman, með því að gera okkur grein fyrir því að það er eðlilegt að vera á mismunandi skoðun í stjórnmálum og að stjórnmál þurfa ekki og eiga ekki að vera stríð heldur samstarf.

Ég óska þess að ég eigi áfram gott samstarf bæði við stjórn og stjórnarandstöðu á þinginu.