141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[11:54]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir að koma með þessa skýrslu hingað inn í þingið og ræða þetta mikilvæga mál. Ég þakka jafnframt sérstaklega félaga mínum, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, fyrir framgöngu hennar í þessu máli sem hefur verið virkilega aðdáunarverð. Það er ótrúlegt hve langt hefur tekist að koma þessu máli. Ég vil líka þakka öllu því IMMI-fólki sem hefur unnið að þessu máli utan þingsins, lagt af mörkum ómetanlegt starf við að koma þessu á koppinn og kynna þetta á alþjóðavettvangi þar sem málið hefur vakið mjög mikla athygli og miklu meiri athygli en hér á landi. Það er aðdáunarvert hvernig hægt er að hóa saman fólki í grasrótarsamtökum og koma mikilvægum málum á dagskrá þjóðþings. Þetta er skýrt dæmi um það.

Það sem ég mundi helst vilja tala um í þessu sambandi er réttarfarsverndin. Jafnt aðgengi að dómstólum og réttlát málsmeðferð er mikilvægur þáttur réttarríkis og lýðræðis. Í ýmsum löndum þar sem lagavernd er sterk er aðgangur að dómstólum erfiður því að jafnvel þó að lögin veiti vernd getur verið fjárhagslega erfitt fyrir almenna borgara að verjast málsóknum hvers tilgangur er jafnvel annar og meiri en að hreinsa meint mannorð kæranda. Nýlegt dæmi í þessu er málshöfðun gegn bloggaranum Teiti Atlasyni, tilhæfulaus málsókn sem eingöngu virðist vera stofnað til með það í huga að gera honum erfitt fyrir fjárhagslega. Nú hefur því máli verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Það sem Teitur gerði var að hann var að endurflytja frétt sem áður hafði verið flutt í fjölmiðli á Íslandi og það hefur kostað hann hundruð þúsunda. Ég gæti nefnt nærtækara dæmi af nákvæmlega sama meiði þar sem slíkt fyrirkomulag hefur viðgengist. Það er ófremdarástand ef hægt er að bjóða upp á þetta og þarf með einhverjum hætti að skoða. Það ætti alltaf að borga sig fyrir borgarann að verja sig gegn vel fjármögnuðum kæranda sem ætlar sér fyrst og fremst að valda kærða fjárhagstjóni og finna þarf leiðir til að tryggja að það sé hægt.

Ein leið til þess að ná þessu marki eru ákvæði laga í anda löggjafar í Kaliforníu, svokallaðrar anti-SLAPP löggjafar, sem mælir fyrir um möguleika almennings á gagnsókn við málaferlum. Í krafti slíkra laga getur sakborningur farið fram á að litið verði svo á að mál hans snúist um tjáningarfrelsið. Ef fallist er á það taka ýmis verndarákvæði í þágu sakborningsins gildi á meðan á málaferlunum stendur og ef dæmt er sakborningi í hag er tryggt að allur málskostnaður fellur á þann sem kærði. Slík ákvæði, hæstv. forseti, væru mjög mikilvæg í þessum málum.

Töluliður 5 í upptalningu þeirra atriða sem stýrihópurinn á að sinna tekur aðeins á þessu þar sem fjallað er um málskostnað í málum sem varða tjáningarfrelsi og jafnframt hvort rétt sé að setja reglur um opinbera réttaraðstoð vegna málskostnaðar o.s.frv. Mig langar að spyrja ráðherra hvort til standi, og þá með hvaða hætti, að taka tillit til þessara sjónarmiða í fyrirhuguðum tillögum stýrihópsins og hver afstaða hæstv. ráðherra til þessa máls er.

Mig langar líka í lokin að minna á tvo dóma Mannréttindadómstóls Evrópu frá því síðasta sumar gegn íslenska ríkinu og ákvörðun þess dómstóls nýverið að taka á dagskrá tvö önnur mál frá Íslandi. Þessi atriði vekja upp alvarlegar spurningar um íslenska dómaframkvæmd og réttarvernd og það er mjög brýnt að þetta atriði verði þegar í stað rætt ítarlega við ráðherra dómsmála og kannað rækilega (Forseti hringir.) hvar meinbugir í íslenskri löggjöf og dómaframkvæmd liggja. Ég sakna þess, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagði, að ráðherra dómsmála skuli ekki (Forseti hringir.) vera hér í salnum við þessa umræðu. Að lokum vil ég þakka fyrir hana.