141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[12:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Mjög góð sjónarmið hafa komið fram. Ég ætla að leitast við að svara á þessum stutta tíma þeim athugasemdum sem var beint til mín. Mig langar þó fyrst að byrja á því að þakka, eins og margir hafa gert, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir frumkvæði hennar í málinu og mjög gott samstarf. Ég held að það hvernig við höfum reynt að standa að þessu máli. sé til marks um gott samstarf löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.

Ég vil nefna líka, því að ég tók það ekki fram áðan, að starfshópurinn sem skipaður var er skipaður fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, fjölmiðlanefndar og IMMI-stofnunarinnar. Ég tel að þarna hafi komið saman sérfræðingar á sviði tjáningarfrelsis og lagarammans í kringum það en líka á sviði tækni og alþjóðlegra skuldbindinga. Það hefur verið reynt að horfa á málið út frá ólíkum hliðum.

Spurt var um nokkra hluti sem ég ætla að leitast við að svara. Fyrst um ráðstefnu sem ætlunin er að halda og ég greindi frá áðan sem snýr að uppljóstraramálum og vernd afhjúpanda. Hún verður haldin í nóvember og verður auglýst bráðlega. Ég hvet hv. þingmenn til að taka þátt í þeirri umræðu því þar er einmitt ætlunin að draga fram ólík sjónarmið.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir spurði líka um hvernig ætti að halda áfram þessari vinnu. Ég lít svo á að þingsályktunartillaga sem er samþykkt hér gildi þrátt fyrir kosningar og það komi ný ríkisstjórn. Ég lít svo á að það eigi ekki að breyta neinu. Við teljum hins vegar auðvitað mjög gagnlegt að ljúka sem mestu af vinnunni á þeim tíma sem það þing sem samþykkti tillöguna starfar. Þess vegna vonumst við til að sjá fleiri frumvörp en það sem ég nefndi áðan og forsætisráðherra hyggst leggja fram sem snýr að opinberum starfsmönnum. Hv. þingmaður Eygló Harðardóttir gerði að sérstöku umtalsefni áðan nauðsyn þess að skýra ákvæði um þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Ég á von á því að fleiri lagafrumvörp komi fram og ég vísa þar til þess sem ég nefndi áðan sem liggur hjá réttarfarsnefnd og snýr að hegningarlagaákvæðunum. Ég á von á því að þegar það álit liggur fyrir ætti að vera hægt að hafa hraðari hendur og vinna frumvarp þess efnis sem snýr að hegningarlögum og meiðyrðamálum svo það sé sagt.

Hér var spurt um það sem kallað er upp á enska tungu „libel tourism“ og snýr að þeim reglum sem hafa verið í gildi innan Evrópusambandsins. Ég vil bara taka það fram að ég hef vakið athygli ráðherranefndar um Evrópumál á þessu sem og samninganefndar Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Enn fremur verður það gert með formlegum hætti með bréfi til innanríkisráðherra. Það er því búið að flagga þessu máli, ef svo má að orði komast, í samningaviðræðunum.

Ég hef spurst fyrir um það hjá þeim sem gerst þekkja til í málefnum Evrópusambandsins hvernig þeir meta stöðuna þar. Það liggur fyrir að á vettvangi Evrópuþingsins hefur þetta verið mjög til umræðu og mikill vilji til breytinga en við sjáum ekki framan í þær breytingar enn þá. Það er ekki hægt að treysta á neitt í þeim efnum. En gerjunin er að minnsta kosti mikil og vonandi verða breytingar í góða átt í þessa veru innan Evrópusambandsins af því að þetta snýr ekki bara að okkur hér.

Hér var rætt aðeins um meiðyrðalöggjöfina og hv. þm. Þór Saari nefndi „anti-SLAPP“ löggjöfina svokölluðu, svo aftur sé notuð ensk tunga, sem er í gildi í Kaliforníu. Mér fannst gott að hv. þingmaður nefndi það. Það er á dagskrá stýrihópsins að skoða hvort þau ákvæði sem hafa verið sett inn um gjafsókn, sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi, dugi í þessum málum eða hvort þurfi að ganga lengra og taka til að mynda til skoðunar þetta fordæmi frá Kaliforníu, svo því sé svarað.

Ég vil líka nefna af því að hv. þm. Þór Saari nefndi dóma Mannréttindadómstólsins í Evrópu að þeir íslensku dómar sem voru þar til umfjöllunar byggðu á eldri löggjöf. Ný fjölmiðlalög voru sett eftir þá löggjöf sem snýr að rétti blaðamanna til að hafa eftir þriðja aðila. Hv. þm. Skúli Helgason kom inn á þetta. Þar höfum við þegar fengið allmiklar réttarbætur og ég vildi bara ítreka það.

Tími minn er á þrotum. Ég vil að lokum segja að ég tel mjög jákvætt (Forseti hringir.) að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fundi reglulega með stýrihópnum og það mun ég að sjálfsögðu gera líka. Ég vonast til að við sjáum sem mest framfaraskref á þessu sviði í vetur.