141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[12:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðallega að koma hér og lýsa smááhyggjum. Ég mun eins og aðrir styðja þetta mál. Ég hvet þó nefndina til að velta þessum áhyggjum fyrir sér ef ekki er þegar búið að mæta þeim að fullu.

Eins og allir vita er fötlun margs konar, það er engin ein gerð af henni og einstaklingarnir eru mismunandi. Ég held að við þekkjum öll einhverja sem eiga við einhvers konar fötlun að stríða. Því miður eru líka til einstaklingar sem eru reiðubúnir að misnota sér aðstöðu fólks, það er einfaldlega þannig. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að allt sé gert til að reyna að koma í veg fyrir umrædd tilvik.

Ég treysti sjálfur mjög vel eiðsvörnum embættismönnum til þess að inna af hendi það hlutverk að aðstoða fatlað fólk í kjörklefa. Ég skil hins vegar mætavel kröfu fatlaðra til þess að auka sjálfstæði sitt, ég skil hana vel og finnst hún í raun mjög eðlileg. Við sem getum gert þetta hjálparlaust verðum að setja okkur í þeirra spor. Þess vegna verðum við að hlusta á það sem þessir aðilar hafa fram að færa og reyna að mæta óskum þeirra.

Ég ítreka að þegar maður hugsar til einstaklinga sem maður þekkir þá veltir maður fyrir sér hættunni sem getur legið í þessu. Það er því mikilvægt að hafa þetta allt í huga. Verði þetta að lögum, sem ég vona, verður þessi aðferð notuð í fyrsta sinn 20. október. Það þarf væntanlega að fara vel yfir reynsluna sem þá skapast og bregðast við ef ástæða er til. Ef hins vegar það frumvarp sem hér er lagt fram og þær breytingar sem nefndin gerir eru þess eðlis að hið fullkomna tæki er orðið til þá fögnum við því að sjálfsögðu.

Kannski er aldrei hægt að búa til eitthvað alfullkomið eða koma í veg fyrir að slysin gerist en ég held að það sé skref í rétta átt að mæta kröfum fatlaðra. Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við fyrirkomulagið eins og það var nema hvað ekki var verið að mæta kröfum mjög margra. Það er náttúrlega verið að bregðast við því. Ég lýsi því yfir að ég styð þetta frumvarp.