141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[12:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því eins og aðrir að þetta frumvarp sé komið svo langt áleiðis. Það er engin spurning um að hér er um að ræða mikla réttarbót fyrir þá sem það á við. Upp hafa komið tilvik þar sem fundið hefur verið að því að fólk hefur ekki, sakir einhverrar fötlunar, getað notað kosningarrétt sinn á þann hátt sem það hefði kosið. Það hefur því talið sig þurfa frá að hverfa eða hefur í raun aldrei látið á það reyna vegna þess að það hefur vitað fyrir fram að hverju það gengi við kosningarnar. Má segja sem svo að þar með höfum við haft kosningarrétt af þessu fólki.

Það er auðvitað mjög alvarlegt vegna þess að kosningarrétturinn er einhver helgasti réttur okkar í lýðræðislegu samfélagi. Við verðum sem löggjafi að búa þannig um hnútana að þeir sem eiga rétt til að kjósa í lýðræðislegu samfélagi geti gert það með þeim hætti sem þeir helst kjósa, innan þeirra marka sem löggjafinn setur og hér hefur verið tíundað.

Hér hafa komið fram spurningar um ýmis álitamál sem koma upp í hugann þegar þessi mál eru rædd. Ég sé ekki betur en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi farið prýðilega yfir þau, eftir því sem ég get að minnsta kosti lesið út úr nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem nefndin kynnir sömuleiðis.

En þetta er ekki alveg nýtt af nálinni. Það er ekki svo að þessi álitamál hafi fyrst komið upp nýverið í tengslum við forsetakosningarnar. Þau hafa komið upp á fyrri stigum og meðal annars í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings sem raunar voru síðan ógiltar eins og allir muna. Þá kom upp nákvæmlega sama mál.

Þá kom mjög ákaft ákall meðal annars frá samtökum fatlaðra, ef ég man rétt, um að þingið mundi bregðast við og breyta lögunum þannig að tryggt yrði að komið yrði til móts við sjónarmið þeirra sem teldu sig eiga óhægt um að kjósa vegna ákvæða í gildandi kosningalögum.

Í aðdraganda kosninganna til stjórnlagaþings voru þessi mál mikið rædd og það endaði með því að fyrrverandi hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson flutti frumvarp sem var efnislega samhljóða því frumvarpi sem hér er rætt um. Þó að útfærslan núna sé að nokkru leyti öðruvísi voru efnisleg ákvæði fyrra frumvarpsins nákvæmlega hin sömu og hugsunin og tilgangurinn nákvæmlega hinn sami. Meðflutningsmenn hans vorum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Síðan það frumvarp var lagt fram hafa farið fram að minnsta kosti tvennar eða þrennar kosningar. Það hafa verið þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave eins og menn muna og forsetakosningar. Nú vaknar spurning um hvers vegna þetta frumvarp Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem meðal annars naut stuðnings þáverandi hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra, núverandi innanríkisráðherra, var ekki samþykkt. Af hverju var það ekki afgreitt?

Það var lagt fram 25. nóvember 2010, fyrir tæplega tveimur árum síðan. Alþingi hafði þá tækifæri til að gera þessar breytingar og gera þær mjög skjótt eins og þörf hefði verið á við þær aðstæður en kaus að gera það ekki. Það var meðvituð ákvörðun Alþingis að láta kosningarnar til stjórnlagaþings ganga fyrir sig án þess að bregðast við þeim ábendingum sem voru komnar fram.

Það verður að segja þessa sögu eins og hún er þótt hún sé sorgarsaga. Kannski má segja að þetta hafi ekki komið að mikilli sök í stjórnlagaþingskosningum úr því að þær voru dæmdar ógildar. En það komu kosningar eftir þær kosningar og ekki er hægt annað en að átelja að svona skyldi fara og að Alþingi skyldi ekki takast á við þetta verkefni, meðal annars í ljósi þess að prýðilega undirbúið frumvarp lá fyrir þar sem reynt var að taka á þessu.

Ég held að við ættum að líta mjög í eigin barm í þessum efnum. Ég er ekki í vafa um að ein ástæðan fyrir því að frumvarpið var ekki afgreitt var sú að það var flutt af röngum mönnum — þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna var málið látið dankast. Það eru auðvitað ekki góð vinnubrögð að málið skuli hafa verið komið formlega til þingsins og þessi mál verið til umræðu í þjóðfélaginu í tvö ár og það sé fyrst núna sem þingið bregst við eins og það gerir nú.

Mér fannst nauðsynlegt að árétta þessa forsögu málsins til að halda henni til haga og til þess að við mættum læra af henni. En ég vil hins vegar þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að leggja fram frumvarpið á þessu hausti. Hann sýndi náttúrlega að hann vildi hafa þetta eitt af forgangsmálum sínum með því að leggja það fram sem eitt af sínum fyrstu málum, gott ef þetta var ekki hans fyrsta mál á þessu hausti. Ég vil líka þakka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir að hafa unnið vel í málinu. Ég sé að nefndin hefur velt fyrir sér ýmsum álitamálum og greinilega ekki kastað til höndum og gert efnislegar breytingar sem eru líka rökstuddar í nefndarálitinu.

Það var eingöngu þetta sem ég taldi nauðsynlegt að koma á framfæri, að rekja þessa sögu og samhengið og vekja athygli á því hvernig þetta mál er allt í pottinn búið.