141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Eins og hv. þingmaður þekkir er þetta sígild umræða þegar kemur að almannaþjónustumiðlum. Ef hv. þingmaður lítur til þeirra miðla sem starfa í löndunum í kringum okkur, hvort sem er annars staðar á Norðurlöndum eða í Bretlandi, þá rækja þeir þetta hlutverk sitt nákvæmlega þannig. Það má segja að við leggjum ríkari kvaðir á þessa miðla en það breytir því ekki að þeir skulu hafa mjög víðtæka skírskotun til alls almennings enda almannaþjónustumiðlar. Hlutverkið er því gríðarlega fjölbreytt. Munurinn er sá að þeir geta til að mynda ekki leyft sér að miðla eingöngu afþreyingu eða eingöngu fréttaefni svo að dæmi sé tekið, heldur þurfa þeir að skipta starfsemi sinni milli þessara þátta. En vissulega er þetta fjölbreytt. Þannig hefur hin evrópska nálgun verið á almannaþjónustumiðla. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til þess að við rekum ríkisútvarp okkar með öðrum hætti en danska ríkissjónvarpið eða hið breska, svo að dæmi séu tekin.