141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég gerði nokkrar athugasemdir í umræðunni í gær um tæknileg atriði. Mér fannst hæstv. menntamálaráðherra bregðast við eins og athugasemdirnar hefðu komið úr rangri átt, hún reyndi sem hún gat að tala þær niður. Ég sé ekki af hverju má ekki skrifa alls staðar í textann ohf. fyrst það er í fullu samræmi við hlutafélagalögin sem segja að opinberum hlutafélögum er einum rétt og skylt að hafa ohf. með nafni sínu. Þessu þurfa allir aðrir í landinu að hlíta. Auðvitað veit ég að Alþingi getur sett lög um hvað sem er, en mér finnst að ohf. eigi að vera þarna til samræmis. Þetta skiptir í sjálfu sér engu máli þannig að ég skil ekki þessa mótsögn.

Síðan er það með manninn í stjórn sem ekki hefur atkvæðisrétt. Hvurslags stjórnarmaður er það? Hann er ekkert í stjórn af því hann stjórnar ekki. Þess vegna finnst mér að það ætti að breyta þessu í nefndinni þannig að fulltrúi starfsmanna hafi rétt á að sitja stjórnarfundi, skuli boðaður á stjórnarfundi og hafi atkvæðis- og tillögurétt en sitji að sjálfsögðu ekki í stjórn. Annaðhvort er maðurinn í stjórn og stjórnar eða hann er ekki í stjórn og stjórnar ekki. Ég skora á nefndina að skoða þetta.

Síðan með stjórnina þá þekki ég það ekki nákvæmlega en ég held að samþykktir félaga geti ákveðið hvað stjórnir sitja lengi. Það þarf ekki að kjósa stjórn á hverjum einasta aðalfundi. Þarna stendur ekkert um það hvað stjórnin sitji lengi. Hins vegar skal einhver valnefnd kjósa eða velja menn til tveggja ára. Af því dreg ég strax þá ályktun að stjórnarmenn sitji í tvö ár.