141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

198. mál
[14:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Forsögu frumvarps þessa má rekja til stefnu Vísinda- og tækniráðs sem gilti fyrir árin 2010–2012 sem bar yfirskriftina „Byggt á styrkum stoðum“. Þar var sérstök áhersla lögð á aukið samstarf háskólastofnana og fyrirtækja við rannsóknir og nýsköpun. Enn fremur er mælt fyrir um sameiningu Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs, breytingu á nafni og starfssviði Tækjasjóðs með vísan í skýrslu innviðanefndar Vísinda- og tækniráðs um gerð vegvísis um uppbyggingu innviða og rannsókna á Íslandi frá árinu 2009. Í stefnunni er jafnframt lagt til að markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð. Með endurskoðun laga nr. 3/2003 er því verið að mæta þeim áherslumálum sem koma meðal annars fram í framangreindri stefnu. Þar að auki er lagt til að lögin verði samhliða þessu tekin til heildstæðrar endurskoðunar og er í frumvarpinu mælt fyrir um tillögur að breytingum á nokkrum þáttum laganna, sem þykir brýnt að bætt verði úr.

Þrír sjóðir starfa samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og þeir heyra allir undir mennta- og menningarmálaráðherra og eru allir í umsýslu Rannís. Það eru Rannsóknasjóður, Rannsóknarnámssjóður og Tækjasjóður. Rannsóknasjóður styrkir vísindarannsóknir, Rannsóknarnámssjóður styrkir nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi og Tækjasjóður styrkir kaup á dýrum tækjum og búnaði. Þessir sjóðir ásamt Tækniþróunarsjóði, sem kveðið er á um í lögum nr. 75/2007 og heyrir undir nýstofnað atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mynda kjarna hins opinbera sjóðakerfis fyrir rannsóknir og nýsköpun hér á landi.

Að auki ber að nefna markáætlun á sviði vísinda og tækni en í fjárlögum eru veittir styrkir til grunnrannsókna og hagnýtra verkefna undir formerkjum markáætlunar á sviði vísinda og tækni.

Markáætlanir á sviði vísinda og tækni eru samkeppnissjóðir sem styrkja tímabundið átaksverkefni á tilteknum sviðum. Hingað til hafa þrjár markáætlanir verið starfræktar á Íslandi. Sú fyrsta, frá 1999 til 2003, um umhverfisvísindi og upplýsingatækni, sú næsta, frá 2005 til 2009, um erfðafræði í þágu heilbrigðis og örtækni, og sú nýjasta, frá 2009 til 2015, um öndvegissetur og klasa. Hafa þær eðlilega verið á ólíkum sviðum. Þessar þrjár markáætlanir hafa styrkt verkefni í opinni samkeppni á þeim sviðum sem markáætlanirnar starfa. Meðal hlutverka markáætlana er að styrkja verkefni sem spanna svið vísinda, tækni og nýsköpunar, allt í senn, og eiga því ekki heima undir öðrum sjóðum. Markáætlun hefur verið fastur liður á fjárlögum frá 1999 en ekki haft stoð í lögum.

Virðulegi forseti. Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru: Í fyrsta lagi er lagt til að Rannsóknasjóður og Rannsóknarnámssjóður verði sameinaðir undir nafni Rannsóknasjóðs. Með því má fá betri yfirsýn yfir sjóðina og þau verkefni sem styrkt eru. Helstu kostir eru þeir að með sameiningu getum við átt von á að hún leiði til meiri samfellu og yfirsýnar í úthlutunum styrkja til nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi. Faglegt mat umsókna til rannsóknartengds framhaldsnáms mun styrkjast en ekkert fagráð starfar nú við Rannsóknarnámssjóð. Ég held að þetta sé lykilatriði, ég held að þetta geti í raun og veru verið liður í að efla gæði í því hvernig við metum umsóknir um rannsóknarstyrki. Fyrir utan það ætti sameining að leiða til minni umsýslu.

Í öðru lagi er lagt til að heiti Tækjasjóðs verði breytt í Innviðasjóð og hlutverk hans útvíkkað svo hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna, svo sem gagnagrunna og hugbúnað sem ekki teljast beinlínis til tækja.

Talið er mikilvægt að útvíkka hlutverk sjóðsins og að hann takmarkist ekki eingöngu við tæki enda er þróun í þessum málum mjög hröð og menn sjá fram á sívaxandi vægi ýmiss konar sameiginlegra gagnagrunna í rannsóknum á mjög ólíkum sviðum. Einnig er lagt til að skipað verði sérstakt fagráð fyrir Innviðasjóð sem meti umsóknir um styrki úr sjóðnum. Ég held að það sé líka mikilvægt atriði.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um að markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð en markáætlun fellur ekki undir lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Hún er samt sem áður á forræði mennta- og menningarmálaráðherra á hverjum tíma. Ég held að allir geti verið sammála um að það sé til bóta að verkefni af þessari stærðargráðu sem er með hundruð milljóna á fjárlögum fái sérstaka stoð í lögum. Því er í frumvarpinu mælt fyrir um að hún verði sett undir lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og að sérstakri stjórn verði falið að fara með málefni markáætlunar á sviði vísinda og tækni.

Í fjórða lagi er lagt til að formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs verði ekki jafnframt formaður stjórnar Rannsóknasjóðs. Samkvæmt gildandi lögum stýrir formaður vísindanefndar þeirri nefnd sem tilnefnir fagráðsmenn fyrir Rannsóknasjóð. Á sama tíma gegnir formaður vísindanefndar jafnframt formennsku í stjórn Rannsóknasjóðs en hann ber ábyrgð á úthlutunum úr sjóðnum. Stjórn Rannsóknasjóðs tekur jafnframt við öllum athugasemdum sem umsækjendur gera við úthlutun sjóðsins en samkvæmt gildandi lögum sæta ákvarðanir stjórnar ekki stjórnsýslukæru. Þarna er verið að horfa á það að dreifa þessum hlutverkum.

Síðan vil ég nefna tvennt. Þetta frumvarp var kynnt í opnu ferli á netinu og bárust við það ýmsar athugasemdir. Ein athugasemd sem barst, og mig langar að segja þingmönnum frá, varðar ekki efni frumvarpsins sem slíks. Sjálfstætt starfandi fræðimenn hafa bent á að Rannsóknasjóður í núverandi mynd gagnist ekki mikið nema fyrir þá sem eru í stöðum til að mynda hjá rannsóknarstofnunum eða háskólum og hafi þar af leiðandi aukið bakland fyrir rannsóknir sínar.

Mitt mat er það eftir að hafa legið yfir málinu og skoðað þetta frumvarp að réttari leið til þess að efla stuðning við sjálfstætt starfandi fræðimenn sé að efla Launasjóð fræðiritahöfunda sem starfar samkvæmt reglugerð, endurskoða hlutverk hans þannig að hugsanlega sé hægt að efla hann og styrkja hann í sessi.

Jafnvel mætti hugsa sér að nýta þá aukningu sem nú er fyrirhuguð í fjárlögum að einhverju leyti og það þarf ekki háar fjárhæðir til til að efla þann launasjóð. Ég tala bara opið um þessa hugmynd því ég held að hún geti hreinlega nýst mjög vel til að styrkja þá fræðimenn sem eru að vinna til að mynda að efni á eigin vegum. Ég nefni sem dæmi athugasemdir sem bárust frá Reykjavíkurakademíunni sem sendi inn athugasemdir við frumvarpið. Ég held að þarna gætum við náð þéttara og heildstæðara kerfi með því móti og skal ég glöð ræða þessi mál við hv. allsherjar- og menntamálanefnd ef hún óskar þess.

Hitt sem hv. þm. Eygló Harðardóttir vakti athygli mína á áðan varðar 5. gr. frumvarpsins og opinn aðgang. Ég get skýrt það nánar á eftir en ég sé að því miður hefur ekki verið greint frá þessu með fullnægjandi hætti í greinargerð, að þarna er verið að leggja til nýmæli og mér finnst rétt að ég skýri frá því að þetta byggir líka á sömu stefnu Vísinda- og tækniráðs þar sem segir, með leyfi forseta:

„Tryggja þarf gott aðgengi að rannsóknaniðurstöðum sem hið opinbera styrkir, en þannig má stuðla að skilvirkri nýtingu rannsókna. Nauðsynlegt er að skoða nánar lagalegar og efnahagslegar hliðar á opnum aðgangi að rannsóknaniðurstöðum og verndun hugverkaréttinda.“

Vísinda- og tækniráð leggur sem sagt til að þetta verði gert að kröfu. Í raun og veru hafa margir háskólar og rannsóknarstofnanir margar hverjar gert þessa kröfu nú þegar.

Vísinda- og tækniráð lagði síðan til að Ísland yrði aðili að Berlínaryfirlýsingunni frá 2003 sem 274 ríkisstjórnir, háskólar og stofnanir hafa undirritað frá því að hún var samin og hún snýr að þessu sama. En ég skal með glöðu geði svara fyrirspurnum um þetta. En það eru auðvitað leið mistök að þetta sé ekki skýrt í greinargerðinni.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er reynt að stuðla að heildstæðara og gagnsærra styrkjakerfi í opinberum stuðningi við vísindarannsóknir sem jafnframt taki mið af þeirri þróun sem hefur verið innan vísindakerfisins. Lagt er til að starfandi verði þrír sjóðir, Rannsóknasjóður, Innviðasjóður og markáætlun, allir í umsýslu Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Ég lít líka á þetta sem lið í einföldun sjóðakerfisins sem lengi hefur verið á dagskrá Vísinda- og tækniráðs þannig að þeir fjármunir sem við höfum úr að spila til rannsókna og þróunar nýtist sem best. Ég tel að æskilegt væri, svo fremi sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd sjái ekki mikla meinbugi á frumvarpinu, að við ljúkum þessu máli samhliða því að við ljúkum því að auka og efla þá sjóði sem vonandi næst sátt um við fjárlagagerðina í vor. Ég held að það sé mjög brýnt að við eflum með þessum hætti samkeppnissjóði á sviði rannsókna og nýsköpunar.