141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

198. mál
[14:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég mun koma inn á það í máli mínu á eftir að ég tel þetta vera í heildina rétt skref. En að mörgu er að hyggja og í rauninni kom hv. þm. Eygló Harðardóttir inn á þær spurningar helstar sem ég hafði ætlað mér að færa fram í þessu andsvari en engu að síður er ein eftir. Hér er lagt upp með ákveðna heildarsýn, verið er að skerpa hlutina, það er verið að sameina og ég tel að það sé rétt að farið.

Hins vegar finnst mér standa eftir heildarsýn ríkisstjórnarinnar á rannsóknar- og vísindamálum á grundvelli samkeppni. Og ég held að ráðherra viti alveg hvert ég er að fara, ég er að fara að tala um aukið virði sjávarfangs, þann sjóð sem er að verða, held ég, að mínu mati einn stærsti rannsóknasjóðurinn. En þar gilda ekki sömu reglur að mínu mati og gilda um Rannsóknasjóðinn og vísindasjóðina hjá okkur sem falla undir ráðuneyti menntamála. Þó að það séu einhverjar viðmiðanir við alþjóðlegar reglur þá eru þær að mínu mati ekki fullnægjandi. Það eru ekki bestu niðurstöður, bestu rannsóknir sem fá úthlutað. Og við sjáum að það er engin tilviljun þegar ákveðinn þingmaður var ráðherra þá einhverra hluta vegna fóru flestar úthlutanir um aukið virði sjávarfangs í það kjördæmi. Það var fyrir tveimur eða þremur árum.

Ég spyr: Hvaða umræða hefur átt sér stað innan ríkisstjórnarinnar? Af því að það eru nú menn sem hafa haft metnað í þá veru að ýta undir rannsóknar- og þróunarstarf og hafa talað um það í fyrri ríkisstjórnum líka að sameina þessa sjóði og gera eitthvað í því, hefur sú umræða átt sér stað í þessari ríkisstjórn og hvernig hefur ráðherra þá nálgast hlutina?