141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

virðisaukaskattur.

60. mál
[16:02]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég sný mér að efni þessa máls vil ég segja að ég get tekið undir með mínum ágæta sveitunga, hv. þm. Kristjáni L. Möller, um áhrif þess að lækka skatta á vöru og þjónustu. Þetta er alveg rétt lýsing hjá hv. þingmanni; ef við lækkum eða fellum niður virðisaukaskattinn af þessari þjónustu megum við eiga von á því að umsvifin aukist. Háir skattar eru til þess fallnir, eins og réttilega kom fram, að draga úr veltu og umfangi. Þetta hefur okkur lengi verið ljóst norður á Siglufirði. Þetta hefur hv. þingmaður auðvitað lært þar enda góður hægri krati og hefur næman og góðan skilning á þörfum atvinnulífsins, enda formaður hv. atvinnuveganefndar.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna. Þetta er merkilegt mál. Flutningsmaður þess, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, á hrós skilið fyrir þennan tillöguflutning og þá festu sem hann hefur sýnt í að koma málinu í gegnum þingið. Áður hafa verið gerðar atrennur að þessu og ég vona að málið komist hér í gegn, klárist og verði að lögum.

Mér fannst áhugavert það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson benti á, að sú staðreynd að málið er hér til umfjöllunar og verið er að ræða hvort fella eigi niður virðisaukaskattinn getur leitt til þess að þeir sem á annað borð íhuga að fjárfesta í þessum búnaði hljóti auðvitað að velta því fyrir sér hvort það borgi sig ekki að doka örlítið við og fjárfesta í honum síðar ef virðisaukaskatturinn hefur verið felldur niður. Það væri bagalegt fyrir marga að kaupa þetta og hálfu ári eða ári síðar yrði virðisaukaskatturinn felldur niður og búnaðurinn mundi lækka í innkaupsverði sem því næmi.

Þessi skýring hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar er ágæt, virðulegi forseti, vegna þess að maður veltir því fyrir sér hvers vegna kaupin á þessum búnaði eru ekki meiri. Er það vegna þess að þegar dæmið er reiknað hafi menn sagt: Með virðisaukanum og öðrum stofnkostnaði borgar sig einfaldlega ekki að gera þetta? Ef menn reikna dæmið þannig setja þeir spurningarmerki við tæknina og hversu góð hún er, en mér finnst skýring þingmannsins á þessu ágæt og sennileg. Þess vegna skiptir máli að taka ákvörðun af eða á sem fyrst og ef ekki er vilji til að hafa málin eins og lagt er til í þessu frumvarpi, þarf það að koma fram svo að vafinn sé ekki uppi.

Þess vegna tek ég undir að það skiptir miklu að flýta afgreiðslu málsins og skil vel þá beiðni hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að málið verði ekki sent aftur út til umsagnar heldur taki nefndin það fyrir á grundvelli þeirra umsagna sem liggja fyrir nú þegar enda hefur engin efnisbreyting orðið á málinu, ef ég skil rétt, frá því að það var áður lagt fram á þinginu.

Virðulegi forseti. Það eru áhugaverðir vinklar á þessu máli og einn sem ég vil nefna snýr að orkukostnaðinum, húshitunarkostnaðinum. Það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að mikil mismunun er fólgin í því hversu miklu dýrara það er fyrir ákveðinn fjölda íbúa þessa lands að kynda hús sín, miklu dýrara en á þeim svæðum sem njóta þess að vera nálægt heitavatnsuppsprettum eða þar sem hægt er að bora eftir heitu vatni.

Þetta vekur mig til umhugsunar um hvað átt er við þegar við ræðum um sameiginlegt eignarhald okkar á þessari auðlind. Nú gengur þjóðin til kosninga þann 20. október þar sem kjósa á um drög að nýrri stjórnarskrá, hvort leggja eigi þau til grundvallar breytingum á stjórnarskrá. Þar er einmitt talað um þjóðareign á náttúruauðlindum.

Ég hlýt að velta upp af því tilefni þessari spurningu: Ef niðurstaðan verður sú að þjóðin eigi öll þessa auðlind, jarðhitann, hvernig ætlum við að rökstyðja það að kostnaður við að hita híbýli manna sé mismunandi eftir því hvar þeir búa á landinu? Getur það samrýmst þjóðareignarhugtakinu að það skipti máli í hvaða sveitarfélagi menn búa? Varla getur það verið svo. Varla geta menn lagt þá merkingu í hugtakið þjóðareign að það þýði að ef maður býr til dæmis í Reykjavík hafi maður vegna búsetunnar umframrétt á þeirri orku sem fyrirfinnst í nágrenni og innan marka þess sveitarfélags. Ef maður býr annars staðar hefur maður minni rétt eða jafnvel engan rétt. Hvað eiga menn við með þjóðareign í þessu samhengi?

Þess vegna hef ég alltaf sagt að það er blekking fólgin í þessu og nær væri að tala um opinbera eign, ríkiseign eða eign sveitarfélaga.

Þeir sem eru þeirrar skoðunar að orkuauðlindin eigi að vera þjóðareign þurfa að svara því hvernig við ætlum að halda á þessum málum í framhaldinu. Ætlum við að segja: Það verður sami húshitunarkostnaður alls staðar? Er það niðurstaðan? Það er nauðsynlegt að það komi fram. Það er þá alla vega rökrétt niðurstaða. Það er mikilvægt þegar við göngum til þessara kosninga að menn skilji og átti sig á hvaða afleiðingar það hefur í för með sér ef þetta verður niðurstaðan.

Ég er hrifinn af þeirri sögu sem hv. þm. Kristján L. Möller nefndi austan af fjörðum um framtakssemi einstaklinga þar. Hún er dæmi um hvernig tækniþróun á sér stað og tæknibreytingar. Þær gerast nefnilega gjarnan í bílskúrum eða hjá einstaklingum, uppfinningamönnum sem eru reknir áfram af nauðsyn eða bara viljanum til að finna upp eitthvað nýtt. Þannig finnum við leiðir til að nýta orku betur og skynsamlegar og um leið á umhverfisvænni hátt. Það er nefnilega ekki alltaf þannig að hugmyndirnar komi að ofan, frá ríkinu eða stórum fyrirtækjum. Einmitt svona dæmi sem hv. þm. Kristján L. Möller nefndi geta skipt miklu máli og það er sjálfsagt að veita þessari tækninýjung alla athygli. Ég þekki sjálfur mörg dæmi um fólk sem býr á köldum svæðum og er að sligast undan þessum húshitunarkostnaði og hefur ekki efni á því að halda húsum sínum heitum yfir vetrartímann. Ég þekki dæmi þess. Þetta er alvörumál og þess vegna styð ég þetta frumvarp af því það hefur þann kost að byggja á tækninýjung sem við getum tileinkað okkur, hún er tilbúin og búið að hanna hana og þróa. Þetta er líka skattahvati. Það er verið að lækka skatta á þessa vöru og hvetja þannig til notkunar.

Þótt ég sé, virðulegi forseti, ekki einn af flutningsmönnum þessa frumvarps, styð ég að það gangi helst sem hraðast í gegn og líka að þetta verði niðurstaðan. Ég held að þetta sé merkilegt og mikilvægt mál, virðulegi forseti.