141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

virðisaukaskattur.

60. mál
[16:14]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira. Þetta er gott mál sem við skulum koma til nefndar og einsetja okkur að reyna að klára áður en við förum í jólafrí.

Ég ætla aðeins að taka upp þráðinn með íslenskt hugvit sem hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi. Ef vel tekst til og margir sjá sér fært að kaupa þennan búnað, hafa efni á því, er ég alveg sannfærður um að það gerist sem hv. þingmaður talaði um: Íslenskir hugvitsmenn og íslenskar smiðjur munu fara á fulla ferð að framleiða þessar dælur þannig að í framtíðinni verða þær ekki innfluttar heldur bara íhlutir, búnar til hér, og þá spörum við gjaldeyri að auki ef við þurfum ekki að flytja þennan búnað inn.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna eitt dæmi. Fyrir nokkrum árum var hér mikil umræða um að breyta gjaldtökukerfi vegamála og í staðinn fyrir olíugjöld og bensíngjöld ættum við að setja svokallaða GPS-kubba í bíla og rukka eftir stað og stund og notkun, í gegnum gervihnött. Við Íslendingar höfum einstakt tækifæri til að verða fyrstir til þess í heiminum. Þá verður jafnræði milli allra án tillits til orkugjafa.

Það merkilega við þetta er að ungir, íslenskir hugvitsmenn fóru af stað og bjuggu til kerfi sem var talið það besta í heimi, kubbarnir sem þeir framleiddu. Það er dálítið merkilegt að setja þetta inn í þessa umræðu um íslenskt hugvit, íslenska útsjónarsemi og tæknifólk okkar sem er fljótt að koma með nýjungar. Eins og gerðist hjá kaupmanninum á Vopnafirði sem notar hinn mikla hita af kælipressunum í búðinni sem halda kjötinu og öðrum vörum köldum og frosnum, til að hita alla búðina. Það er stór sparnaður þegar stofnkostnaður er tekinn frá.

Virðulegi forseti. Það kann að vera, eins og hér hefur komið fram, að ef til vill erum við Íslendingar ekki mikið að hugsa um þetta vegna þess að orkan hjá stærstum hluta íbúa landsins er mjög ódýr. Sem dæmi nefni ég höfuðborgarsvæðið. Það er spurning hvort hinn danski Jeff Clemmensen sem býr á Norðfirði hafi haft í huga upphitunarkostnað í Danmörku sem er mjög mikill, kynnst því af eigin raun, og þess vegna verið á undan okkur Íslendingum að taka upp þessa nýjung, þorað að fara út í þetta og heimfæra upp á Ísland, austur í Neskaupstað. Út úr því hefur komið þetta góða verk sem mun líka spara honum mikla fjármuni á komandi árum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þetta meira. Við skulum koma málinu til nefndar. Ég treysti því að efnahags- og viðskiptanefnd taki það fljótt til sín. Ég segi fyrir mitt leyti: Ég held að við ættum að ræða við formann nefndarinnar um að það kunni að vera að hv. atvinnuveganefnd ætti að skoða málið og veita umsögn um það.