141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[16:49]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Ég verð að segja að mér finnst mjög sárt að vera að ræða þetta hér. Ekki það að ég vilji stinga hausnum í sandinn og neita að horfast í augu við að glæpir séu stundaðir í samfélagi okkar, það er ekki það. En sú aðferð sem hér er lögð til til að berjast gegn glæpum er ekki ný, hún hefur verið notuð víða. Reyndar er það svo að við sem höfum áhuga á sagnfræði getum séð þetta munstur í ótal samfélögum þar sem hugmyndir af þessu tagi hafa náð undirtökum og þær eru hættulegar, það er þannig.

Það hefur auðvitað verið mikil umræða um þessi mál. Mig langar að biðja fólk sem hefur áhuga á þessu, hvað sem því finnst, hvort sem það er með eða á móti, að lesa bókina Endalok Ameríku eftir Naomi Wolf — hún er til í íslenskri þýðingu en hægt að fá hana á ensku líka — en hún fjallar um það hvernig fólk afsalar sér frelsinu fyrir ímyndaða vörn gegn ógn sem er að minnsta kosti að hluta til tilbúningur.

Sumarið 2005 var ég í nokkrar vikur í New York, fjórum árum eftir árásirnar á tvíburaturnana. Borgin var full af vörðum, lögreglumönnum og vopnuðum hermönnum. Vinur minn kom í heimsókn til mín, hann bjó þá í Kanada en hafði áður búið í New York. Honum var mjög brugðið að sjá þessi miklu varnarviðbrögð setja svona sterkan svip á mannlífið. Einhvern veginn er það þannig að mannshugurinn leitar alltaf leiða. Ósjálfrátt leitaði hugurinn að leiðum fram hjá öllu örygginu og hvernig hægt væri að snúa á það. Það var svo auðvelt þótt ekki hafi það staðið til hjá nokkru okkar, hægt var að finna endalausar leiðir til að hafa að engu allt öryggið, alla vopnuðu verðina, alla hríðskotarifflana sem voru á Manhattan þetta sumar. Það var auðvelt að snúa á þetta allt saman ef maður vildi. Ef ekki hefði verið fyrir alla þessa vopnuðu verði hefði ekkert okkar leitt hugann að því.

Við höfum fengið ótal fréttir af skipulögðum glæpahópum síðustu missirin. Mér þykir nóg um. Ég ætla ekki að halda því fram að ekki sé um raunverulega ógn að ræða, en mér finnst nánast verið að sverta mannorð allra sem ganga í leðurfatnaði og keyra mótorhjól, en hvorugt varðar við lög. Það sem skiptir kannski aðalmáli er að glæpir eru bannaðir og þeir hafa verið bannaðir eins lengi og elstu menn muna. Skipulögð glæpastarfsemi er auðvitað líka bönnuð.

Í andsvari hér áðan benti ég á tvö atriði sem mér finnst vera lykilatriði. Í fréttum fyrr á árinu kom fram að 11 gengi eru undir sérstöku eftirliti lögreglu. Það eru 89 meðlimir í þessum 11 gengjum, eða voru það, þeim gæti náttúrlega hafa fækkað eða fjölgað. Þetta eru því fremur fámenn gengi, í þeim eru að meðaltali átta manns. Á síðustu þremur árum fór lögreglan fram á það í 539 skipti að fá heimildir til að hlera síma. Í 533 tilvikum, þ.e. í 99% tilvika, fékk lögreglan heimildir til þess. Í frétt um þetta í Morgunblaðinu gagnrýnir reyndur verjandi dómstóla fyrir að stimpla einfaldlega kröfugerðir lögreglunnar. Inni í þessum tölum eru ekki úrskurðir um leyfi til að koma fyrir hlerunarbúnaði eða leyfi til að fylgjast með tölvusamskiptum og fleira. Það bætist ofan á. Það liggur sem sagt fyrir að lögreglan fær nánast allar þær hlerunarheimildir sem hún biður um og hún veit hvaða 89 karlar og konur eru í glæpagengjum.

Ég get ekki séð af hverju lögreglan þarf forvirkar rannsóknarheimildir til að fylgjast með þessu fólki eða öðru fólki. Ég get ekki séð að nokkur íslenskur dómari mundi neita lögreglunni um heimildir til þess að hlera síma þessa fólks, klúbbhús þeirra eða heimili. Forvirkar rannsóknarheimildir þýða að hafi yfirvöld slíkar heimildir mega þau fylgjast með og safna upplýsingum um einstaklinga jafnvel þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um brot. Það getum verið við sem ekkert höfum af okkur gert. Ég vil ekki láta fylgjast með mér. Ég held að það sé ekki góð tilfinning að lifa í samfélagi þar sem einhver gæti verið að hlera þig.

Í vikunni skrifaði fyrrverandi dómsmálaráðherra grein á Evrópuvaktina — ég er nú reyndar með frétt um þetta á DV því greininni var svo breytt. Björn Bjarnason skrifaði um forvirkar heimildir, með leyfi forseta:

„Hér er meðal annars um að ræða heimild til þess að rannsaka mál án þess að grunur sé fyrir hendi um að unnið hafi verið glæpaverk, forvirkar heimildir.“

Svo segir hann:

„Hann“ — þá á hann við Ögmund Jónasson — „vill ekki að lögreglan fái heimildir sem meðal annars mætti nota til viðbragða ef ástæða þætti til að óttast aðför að Alþingishúsinu eins og skipulögð var í janúar 2009.“

Þetta finnst mér alvarlegt. Það voru ekki skipulagðir glæpahópar sem stóðu fyrir utan þetta hús í janúar 2009, það var ekki svo. Frelsið er yndislegt, frelsið er dýrmætt og frelsi er ekki sjálfgefið. Sagan er full af fólki sem hefur þurft að berjast fyrir því og stundum tapað. Við skulum ekki láta hræða okkur til að afsala okkur frelsinu til að tala í síma sem ekki eru hleraðir, til að ferðast um án þess að fylgst sé með okkur og við skulum stemma stigu við því að yfirvöld safni um okkur upplýsingum án þess að við höfum verið grunuð um nokkuð misjafnt.