141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

vopn, sprengiefni og skoteldar.

183. mál
[17:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki með beina spurningu til hæstv. ráðherra heldur vil ég koma með smáathugasemd varðandi 19. gr. frumvarpsins. Þar er talað um þá sem eiga fleiri en 20 skotvopn. Sú undanþáguheimild sem talað er um í greininni er svolítið sérstök því að þar er sagt að um sé að ræða vopn sem hafi ótvírætt söfnunargildi svo sem vegna tengsla við sögu landsins. Ég veit ekki alveg hvaða vopn það geta verið en ég held hins vegar að taka verði mið af því í 19. gr. að það eru einstaklingar á Íslandi sem safna vopnum sem hafa söfnunargildi. Eðlilegt væri að gera frekar kröfu til þess hvernig búið er um þessi vopn í geymslu. Við verðum líka að gera greinarmun á glæpamönnum sem safna vopnum til að nota þau í illum tilgangi og þeim sem safna vopnum af áhuga eða einhverju þess háttar. Ég hvet nefndina til að skoða það mjög vandlega.

Sumt í þessu ágæta frumvarpi á nokkuð skylt við það mál sem við ræddum áðan sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir var 1. flutningsmaður að og varðar forvirkar rannsóknarheimildir. Ég tek undir með ráðherra þegar hann segir að markmiðið sé að herða refsingu, ég held að það sé til bóta. Ég er áhugasamur um að heyra hvernig menn ætla að leysa þetta með 500 kílóin og bændur, það verður skemmtilegt að fylgjast með því, en ég skil hins vegar hugsunina, hún er mjög góð.

Ég vildi vekja athygli á 19. gr. og hvetja allsherjar- og menntamálanefnd til að reyna að útfæra greinina með þeim hætti að þeir sem eru sannarlega safnarar og safna byssum verði ekki settir út á kant eða þá eignir þeirra hreinlega gerðar upptækar eða eitthvað slíkt, því að mér finnst ákvæðið um undanþágu ekki vera nógu skýrt.