141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

vopn, sprengiefni og skoteldar.

183. mál
[17:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka forseta fyrir að hleypa mér í ræðustól og þakka sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans. Ég ætla að í þessu máli sé pólitískur samhljómur. Við viljum hafa strangar reglur um skotvopn og að þeir sem fara með slík vopn fari með þau af ýtrustu varúð og umhverfið sé þannig sem og lög og reglur að misnotkun á þessum hættulegu verkfærum sé lágmörkuð.

Ég tek hins vegar undir þau orðaskipti sem hér voru á milli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar og hæstv. ráðherra um 19. gr. Það tengist því sem ég tel mikilvægt í þessu máli; að á sama tíma og við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir að misfarið sé með skotvopn og að glæpamenn komist yfir vopn, skulum við líka hafa í huga að almenna reglan er sú að það fólk sem alla jafna fer með skotvopn — sem er fjöldi fólks, svo sem veiðimenn, íþróttamenn og aðrir — fer með þau af virðingu og með þeim hætti sem við viljum. Ég tel því mikilvægt að við tökum á öllu því sem snýr að glæpamönnum, svo það sé sagt, af fyllstu hörku til að vernda almenning í landinu en við skulum passa okkur á að fara ekki þannig fram að við séum fyrst og fremst að taka á þeim sem eru heiðarlegir og gera hlutina rétt.

Ég tel að það sé mjög auðvelt, þótt það útheimti vinnu, samráð og samvinnu, að ganga þannig fram að við náum báðum þessum markmiðum. Ég hef góð orð hæstv. ráðherra fyrir því að málið verði unnið þannig í nefndinni að þeir annmarkar sem eru á því, en málið hefur tekið breytingum eftir samráð, verði sniðnir af og að um niðurstöðuna geti orðið breið pólitísk samstaða. Ég trúi því og treysti að það sé vilji hæstv. ráðherra, sömuleiðis þeirra hv. þingmanna sem fara með málið, að vinna það þannig. Þá mun ég styðja það alla leið og af fremsta megni.

Ég tel mikilvægt að girða fyrir misbeitingu á skotvopnum eins og við mögulega getum, girða fyrir að glæpamenn komist yfir skotvopn, en við skulum samt sem áður ekki ganga þannig fram að við gerum því fólki sem á skotvopn og fer vel með þau algjörlega ómögulegt að eiga þau. Það liggur fyrir, virðulegi forseti, að um skotvopn gilda strangar reglur og stundum eru reglurnar óþarflega íþyngjandi fyrir þá sem fara með skotvopn á þann hátt sem við viljum sjá.

Ég treysti því að hæstv. ráðherra og hv. þingmenn séu sammála því að vinna málið í góðri samvinnu við þau samtök sem best þekkja til og hlakka til að taka þátt í þeirri vinnu.