141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

vopn, sprengiefni og skoteldar.

183. mál
[17:33]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir framlag hans til umræðunnar. Ég heyri að við erum öll á einu máli sem höfum tekið til máls í þessari umræðu. Markmiðið er ekki að þrengja að íþróttamönnum eða fólki sem stundar skotveiðar, fólki sem hefur ekkert misjafnt á samviskunni. Markmiðið er að koma í veg fyrir vopnaeign fólks sem hefur eitthvað óhreint í pokahorninu, það er hugsunin. Verið er að þrengja og skerpa á reglum sem þar gilda og refsingum að sama skapi þannig að hægt sé að beita þeim í slíkum tilvikum, það er meginhugsunin.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði og ég hef sagt fyrr við þessa umræðu, það er mikilvægt að nefndin fari vel yfir þetta. Mikið samráðsferli hefur átt sér stað en það kunna að vera brotalamir enn sem við þurfum að íhuga. Ég treysti því að nefndin geri það þannig að við getum öll vel við unað.