141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

viðurkenning á þjóðarmorði á Armenum.

187. mál
[17:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Það er ótrúlega mikilvægt að læra af sögunni og ég vil þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir frumkvæði hennar og vinnu hennar við að setja þessa ályktun saman.

Mér finnst kannski mikilvægast það sem kemur fram í niðurlagi greinargerðarinnar með ályktuninni, að það er gríðarlega mikilvægt að heimsbyggðin viðurkenni þau voðaverk sem framin voru á armensku þjóðinni sem þjóðarmorð.

Við horfum upp á hrikalega hluti gerast í Sýrlandi. Við horfum upp á ótrúlega hrikalega hluti í Afganistan, í Írak, hugsanlega fljótlega í Íran. Hvenær ætlum við að læra af sögunni?

Þetta er eitt skref í þá átt. Við sem höfum ritað undir þessa þingsályktunartillögu höfum fengið gríðarlega mikinn póst, aðallega frá Tyrklandi, þar sem við erum hvött til að draga hana til baka.

Það er skrýtið hvernig þjóðarmorð eru skilgreind. Það er ein þjóð sem hægt og bítandi hefur þolað menningarlegt þjóðarmorð og ótrúlega mikill fjöldi fólks þar hefur verið myrtur. En það hefur gerst hægt og bítandi í hartnær 60 ár. Hvernig skilgreinir maður þjóðarmorð? Þjóðin sem ég er að tala um eru Tíbetar. Við horfum sífellt fram hjá því sem er að gerast í dag og því sem var að gerast fyrir tíu árum.

Ég hvet hv. utanríkismálanefnd til að fjalla ítarlega um málið og hleypa þessari tillögu í atkvæðagreiðslu. Ég er sannfærð um að þingið eigi ekki í nokkrum erfiðleikum með að samþykkja þessa ályktun.