141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

varðveisla íslenskrar menningararfleifðar á stafrænu formi.

158. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér í þriðja sinn fyrir tillögu til þingsályktunar um varðveislu íslenskrar menningararfleifðar á stafrænu formi, máli sem afgreitt var úr allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta þingi. Hvatt var til að það yrði samþykkt en svo varð ekki.

Tillagan hljóðar þannig, virðulegur forseti:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að setja fram markvissa, heildstæða og metnaðarfulla stefnu um varðveislu íslenskrar menningararfleifðar á stafrænu formi og leggja drög að því að verkið verði unnið á næstu 10–20 árum eftir því hversu umfangsmikið það verður talið.“

Kveikjan að þingsályktunartillögunni er grein eftir Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem bar heitið „Risavaxið menningarverkefni sem hefja þarf vinnu við“. Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 23. janúar 2011. Í henni er rætt um hvernig menningarverðmæti hafa týnst í hernaðarátökum og náttúruhamförum og þeirri hvatningu beint til íslenska menntamálaráðuneytisins eða íslenskra þingmanna að þeir fjalli um og velti fyrir sér mikilvægi þess fyrir komandi kynslóðir að við Íslendingar varðveitum menningararfleifð okkar og að komandi kynslóðir þekki sögu lands og þjóðar sem þjóðarvitund okkar byggist að verulegu leyti á.

Að sönnu er ekki hægt að bera saman hugsanlega eyðileggingu eða glötun menningarverðmæta á Íslandi og í stríðshrjáðum löndum. Engu að síður er umræðan um varðveislu menningararfleifðar okkar umhugsunarverð. Við hljótum að spyrja þeirra spurninga hvernig við varðveitum þá arfleifð okkar og hvernig við gerum hana aðgengilega komandi kynslóðum. Markmiðið með framlagningu þingsályktunartillögunnar er annars vegar að koma í veg fyrir að menningarverðmæti glatist eða eyðileggist og hins vegar að auðvelda fólki aðgang að menningarverðmætum sem er að finna á stafrænu formi.

Þegar hefur verið unnið ákveðið starf í menntamálaráðuneytinu hvað þetta varðar og þeir sem þar unnu að skýrslu lögðu eindregið til að hafist yrði handa við verkefnið. Með mótun markvissrar, heildstæðrar og metnaðarfullrar stefnu tryggjum við að bókmenntaverk, tónverk, myndverk og önnur menningarverðmæti fyrri alda, áratuga og komandi ára verði alltaf tiltæk almenningi á stafrænu formi.

Það eru miklar tækniframfarir í samfélögum í dag, komin eru tæki til lestrar og má vænta þess að fljótlega komi önnur tæki sem gefa fólki kost á að njóta menningarverðmæta með einum eða öðrum hætti sem hingað til hefur eingöngu verið notið með áhorfi eða hlustun.

Virðulegur forseti. Slíkt menningarverkefni er umfangsmikið og krefst verulegra fjármuna en með því að setja raunhæf markmið til nokkurra ára ætti verkefnið að geta orðið fjárhagslega framkvæmanlegt. Ég bendi á að í náinni framtíð eru tvö stórafmæli íslensku þjóðarinnar, það er 100 ára afmæli fullveldis 1. desember 2018 og 1100 ára afmæli Alþingis 2030. Þjóðargjöfin gæti verið sú að hefjast handa við þetta verkefni og ljúka því á 1100 ára afmæli Alþingis 2030.