141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis.

55. mál
[18:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er lagt hér fram enn og aftur og hef ekki miklu við það að bæta. Þetta er auðvitað eitthvað sem mikið hefur verið kallað eftir í kjölfar hrunsins og ég rekst á þessa ósk á hverjum einasta degi. Þá kemur fólk til mín og segir: Mikið vildi ég óska þess að hægt væri að kjósa fólk en ekki flokka, út af því að það treystir bara einfaldlega sumum en ekki öllum innan flokkakerfisins. Ég held einmitt að þetta væri mjög falleg viðurkenning á manninum sem lagði þetta frumvarp fram fyrst hér á Alþingi fyrir hartnær 30 árum, viðurkenning á hans sýn, því að sá ágæti maður hafði ótrúlega sýn sem því miður hefur ekki enn náð kjölfestu hér inni en þetta er skref í rétta átt. Ég skora á Alþingi að samþykkja þessa tillögu í febrúar 2013.