141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis.

55. mál
[18:14]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er í hópi þeirra þingmanna sem hafa haft efasemdir um gagnsemi þess að auka persónukjör. Það er ekki vegna þess að ég sé á móti breytingum eða óttist um eigin hag eða hafi einhverja hagsmuni til eða frá í slíku, nákvæmlega ekkert slíkt vakir fyrir mér eða hefur áhrif þar á. Reyndar verð ég að segja að mér þykir hálfhvimleitt þegar verið er að leggja upp með það að þingmenn sem hafi aðrar skoðanir en þeir sem mæla fyrir málum hafi eitthvað annað í raun og veru fram að leggja en málefnalega afstöðu til þess máls sem verið er að taka til umræðu.

Ástæðan fyrir því að ég er frekar efins um persónukjörið er að ég hef aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um persónupólitík. Ég er þeirrar skoðunar og segi enn og aftur, það hefur ekkert að gera með neina hagsmuni, fortíðarhyggju eða það að vera á móti breytingum, að persónukjör ýti í eðli sínu undir persónupólitík. Við þekkjum það í sjálfu sér á Íslandi.

Saga er til um það hér að áður en hið hefðbundna flokkakerfi myndaðist í landinu var kosið á einstaklingsgrunni ef svo má segja. Það sem gerðist var að inni í þinginu mynduðust klíkur, flokkar og hópar. Flokkamyndunin var ákveðið svar við þeirri stöðnun og þeirri læsingu sem átti sér stað meðal annars vegna þessa í þinginu. Ekki er alveg víst að það breyti mjög til hins betra, reyndar efast ég um það, stjórnmálalífi okkar Íslendinga að fara þá leið.

Ef ég man rétt, virðulegi forseti, var umræða um það í írskum stjórnmálum eftir efnahagsófarir þeirra og var eitt af því sem bent var á að vegna þess fyrirkomulags sem þar er meðal annars um persónukjör hafi stjórnmálamennirnir verið svo uppteknir af eigin frama í kosningum og stjórnmálum að þeir hafi ekki gefið nægan gaum að því sem var að gerast. Þá gætu talsmenn þess fyrirkomulags sem hér er verið að leggja til eðlilega spurt: En hvað með það sem hér var? Hvað með íslenska stjórnmálamenn í aðdraganda hruns? Lærdómurinn er þessi: Það er ekki trygging fyrir því að betur verði fylgst með eða öðruvísi gengið um valdið hvort sem hafðar eru listakosningar með því lagi sem við höfum eða persónukjör eins og við sjáum svo sem og er auðvitað til víða. En ég held að sá galli sé að líklegra verði að það ýti undir persónupólitík. Ég er ekki hrifinn af því. Ég tel einmitt að með flokkafyrirkomulaginu ýtum við stjórnmálunum meira í átt að spurningunni um meginsjónarmið, lífsskoðanir og stefnu, en í persónukjörinu sé meira ýtt undir persónuleika einstakra stjórnmálamanna, ímynd þeirra og það ýti stjórnmálalífinu meira í þá áttina.

Prófkjör eru ekki gallalaust fyrirbæri. Hv. þm. Pétur H. Blöndal benti einmitt réttilega á að þau hafa galla. Fyrir dyrum standa fjölmörg prófkjör næstu vikurnar og mánuðina. Ég tel að lýðræðislegasta leiðin til að stilla upp á lista sé að þeir sem fylgja viðkomandi stjórnmálaflokki að málum, það séu þeir en ekki aðrir sem stilli upp þeirri sveit sem býður sig fram til Alþingis. Það séu þá þau sjónarmið ein að baki að stilla fram þeim einstaklingum sem mest fylgi hafa og sem bestir þykja til þess fallnir að sitja á þingi. Ég tel að það sé nægjanlegt aðgengi fyrir þá sem vilja hafa áhrif á það hvernig stjórnmálaflokkur stillir upp í kosningum. Það er opin og greið leið til að taka þátt fyrir þá sem vilja hafa áhrif. Það vantar ekkert upp á það. Reyndar er það svo og það er þekkt, þó að ég mæli ekki með því, að menn taki meira að segja þátt í prófkjöri fleiri flokka en bara eins eða tveggja, ég mæli ekki með því en sú leið er til.

Síðan er ég líka þeirrar skoðunar að það muni breyta ásýnd kosningabaráttu hjá okkur ef þessi leið væri farin. Ef farin væri sú leið að kosningabaráttan sé ekki bara barátta stjórnmálaflokkanna um hug og hjörtu kjósenda heldur séu það líka einstaklingarnir að berjast um það í hvaða sæti þeir lenda, hvar í röðinni þeir lenda, þá tel ég einsýnt að það muni hafa töluverð og mótandi áhrif á kosningabaráttu, eðli hennar og uppbyggingu. Enn og aftur, virðulegi forseti, ég er ekki viss um að það verði af hinu betra að kastljósið beinist að einstaklingunum, kostum þeirra og göllum, fremur en meginsjónarmiðum og málflutningi stjórnmálaflokkanna.

Það er ekki þannig að við Íslendingar höfum fundið upp hið eina rétta kosningakerfi. Það er alveg eðlilegt og sjálfsagt mál að velta því upp hvernig við stöndum að því. Við höfum verið að breyta á undanförnum áratugum, ekki í neinum stórum stökkum, kosningakerfi okkar, aðlaga það breyttri búsetu í landinu o.s.frv. Þegar prófkjörin komu inn breyttu þau, tel ég, til hins betra og færðu vald frá forustumönnum flokkanna til flokksmanna. Ég held að það hafi verið af hinu betra. Ég held að það hafi ekki verið neitt sérstaklega eftirsóknarvert að það væri ákveðið, eins og kallað er stundum í reykfylltum bakherbergjum, hverjir það væru sem ættu að skipa sæti á framboðslistum, það væri ákvörðun fárra en ekki margra.

En prófkjörin eru ekki fullkomin. Af því að hér var einmitt rætt um fjárhagslega hlið þeirra þá er það alveg rétt að eftir því sem kjósendum og fólki hefur fjölgað í landinu og kjördæmin eru stærri og samvinna hefur aukist, þá hefur kostnaður við að hafa samband við kjósendur líka aukist.

Vandinn er sá að fyrir þá sem fyrir eru á fleti, þeir sem eru á þingi eða eru þekktir einstaklingar, oft og tíðum úr stétt fjölmiðlamanna, þurfa líka á því að halda að kynna sig, þeir hafa ræðustól þingsins eða eru starfandi í fjölmiðlum. En of harðar reglur, of miklar takmarkanir á kostnaði við prófkjör geta komið harðast niður á þeim sem eru að hefja sinn stjórnmálaferil. En, virðulegi forseti, þær breytingar sem hafa verið gerðar, og það skiptir verulega miklu máli, gera þá ríku kröfu að framlög séu birt, að fyrir liggi hverjir styðja einstaka stjórnmálamenn. Það var grundvallarbreyting sem skiptir verulega miklu. Hún hefði mátt koma fyrr. Eins að sett séu ákveðin takmörk fyrir því hversu há fjárframlög mega vera frá einstökum aðilum til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka.

Ég minnist þess að Sjálfstæðisflokkurinn lagði til í umræðum um þessi mál, í aðdraganda lagabreytingarinnar 2007, að lögaðilum yrði ekki heimilað að styðja stjórnmálaflokka. Með öðrum orðum, fyrirtæki mættu ekki láta fé af hendi rakna til stjórnmálaflokka eða til stjórnmálamanna í framboði. Ég held að það hafi í sjálfu sér ekki verið galin hugmynd og segi við stjórnmálaflokkana og stjórnmálamennina: Það eru ykkar flokksmenn, einstaklingarnir sem einir mega láta fé af hendi rakna og þar með draga úr þeirri hættu að fyrirtæki væru að reyna að kaupa sér aðgang að stjórnmálaflokkum eða stjórnmálamönnum.

Virðulegi forseti. Þess vegna er ég, eins og ég sagði í upphafi máls míns, frekar andvígur því að fara í þá átt sem hér er lagt til, áttina að auknu persónukjöri Ég tek eftir því að í greinargerð með frumvarpinu stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Í máli innanríkisráðherra hefur komið fram að ekki verði lagt fram frumvarp um persónukjör á þessu þingi. Þingmenn hafa því ákveðið að leggja fram frumvarp þetta, sem er ólíkt stjórnarfrumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi að því leyti að með þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að kjósendur geti valið frambjóðendur þvert á flokka.“

Þeir sem að þessu standa eru þingmenn annaðhvort úr Samfylkingunni eða Hreyfingunni, nema hv. þm. Þráinn Bertelsson sem er í Vinstri grænum. Ég rek augun í þetta sem segir mér að ekki hafi náðst samstaða milli stjórnarflokkanna um einhverjar svona breytingar. Og ég verð að segja að ef við ætlum okkur að gera breytingar á kosningalöggjöfinni skiptir máli að góð samstaða sé um slíkar breytingar. Eins og ég segi, ég rek augun í það sem kemur fram í greinargerðinni og bregður kannski ákveðnu ljósi á baksvið þessa máls.