141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis.

55. mál
[18:25]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki sammála þingmanninum um öll efnisatriði þessa máls. Ég tel að persónukjör séu af hinu góða því að þau auka völd og valkosti kjósenda og þá sérstaklega þvert á flokka.

Mig langar hins vegar aðeins að taka undir með honum í umræðu um fjármögnun á stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum fyrir prófkjör. Mér þótti mjög vænt um að heyra hann tala um þá hugmynd að banna algerlega styrki frá lögaðilum til stjórnmálahreyfinga. Lögaðilar hafa ekki kosningarrétt og lögaðilar hafa ekki heldur skoðanir en lögaðilar geta haft hagsmuni og mér finnst það bjóða hættunni heim að lögaðilar styrki stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka.

Mér finnst ríkið líka leggja of mikið fjármagn í stjórnmálaflokka. Því velti ég fyrir mér hvort þingmaðurinn sé sammála mér um það að við þurfum að finna leiðir til að koma skilaboðum stjórnmálaflokka á framfæri sem kosta minna og þurfa minna fjármagn þannig að ekki þurfi að leita í digra sjóði fyrirtækja og ekki þurfi að fjármagna kosningabaráttu með ríkisfé. Og þar með væri aðstöðumunur minni og stærri munur gamalla og nýrra framboða jafnaður að einhverju leyti.