141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis.

55. mál
[18:27]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi persónukjörið. Við erum þá bara ósammála um það, ég og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir. Ég er þeirrar skoðunar og hef áhyggjur af því að persónukjör ýti undir persónupólitík og tel að það sé ekki æskilegt en um það má auðvitað deila.

Hvað varðar fjármál flokkanna þá var það svo að þær hugmyndir komu fram frá sjálfstæðismönnum. Þær hlutu ekki brautargengi eða hljómgrunn og þess vegna sér þess ekki stað í lögum að banna lögaðilum að styrkja stjórnarflokkana en ég held að það sé þess virði að skoða það.

Það sem skiptir miklu í því sem hv. þingmaður bendir réttilega á er aðstöðumunurinn á milli nýrra framboða og þeirra sem á fleti eru fyrir. Ég hef af því áhyggjur. Það er ekki eðlilegt að þeir sem koma nýir, stofna flokka eða hreyfingar, og bjóða sig fram til þings standi frammi fyrir því að þeir þurfi í það minnsta að ná, ef ég man þessa reglu rétt, tökum á 5% fylgi til að fá greitt frá ríkinu þannig að ef lagt er af stað og ekki næst það fylgi þá standa viðkomandi flokkar eða hreyfingar uppi með þann kostnað.

Síðan er það hitt að þeir sem eru fyrir, stjórnmálaflokkarnir sem eiga fulltrúa á þinginu, eru betur fjármagnaðir og fara betur fjármagnaðir inn í kosningabaráttuna. Og fjármagn skiptir máli í kosningabaráttu. Þetta er til þess fallið að skekkja lýðræðið.

Ég bendi á grein sem birt var í Morgunblaðinu eftir Sigríði Hallgrímsdóttur þar sem rifjuð var upp grein eftir hv. fyrrverandi þingmann, Eyjólf Konráð Jónsson, þar sem hann viðraði einmitt áhyggjur sínar af því að ef of langt yrði gengið í átt að því að ríkið styrkti flokkana þá væri lýðræðinu nokkur hætta búin.