141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis.

55. mál
[18:29]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Mér þótti gaman að heyra þetta svar frá þingmanninum. Það er reyndar þannig í nýjustu gerð kosningalaganna að öll framboð sem bjóða fram á landsvísu fá greiðslu úr ríkissjóði upp að lágmarki 3 millj. kr. þótt þau nái ekki kjöri gegn framlögðum reikningum. Þau geta því nokkuð örugg eytt 3 milljónum samkvæmt nýjustu lagabreytingu.

Mig langar að velta upp hvaða leiðir þingmaðurinn sér til að koma í veg fyrir þann gífurlega kostnað sem stjórnmálaþátttaka felur í sér. Ég hef lagt til að stjórnmálaflokkar auglýsi ekki í ljósvakamiðlum. Það eitt er gríðarlega kostnaðarsamt, en það sem mér finnst eiginlega meiri galli á því er að sú umræða sem þar fer fram er oft gífurlega yfirborðskennd. Hún er ekki sprottin upp úr grasrót flokksins, hún snýst ekki um hugsjónir, hún er búin til á auglýsingastofu. Ég hef starfað við að búa til kynningarefni og auglýsingarefni og ég veit hvernig það er. Það á ekkert skylt við hugsjónir, hugsunarstarf eða lífsskoðanir. Það er búið til eitthvað sem hljómar vel.

Hvað finnst þingmanninum um það að takmarka auglýsingar í ljósvakamiðlum?