141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

gagnger endurskoðun á skipulagi og forsendum hvalveiða.

83. mál
[18:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er eiginlega rétt að þýska þingið hefur samþykkt að Íslendingar gangi ekki í Evrópusambandið nema að hætta hvalveiðum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta frumvarp sé í takt við þá umsókn.

Þjóðverjar drepa yfir eina milljón dádýra á ári. Þjóðverjar eru mikil veiðiþjóð, þar er mikil veiðihefð, og þeir gera það í sátt við náttúruna að því er þeir segja. Sumum þykir líka vænt um hvali. Mér þykja dádýr alltaf óskaplega falleg, lítill bambi, þannig að það mætti alveg eins færa þau rök fyrir því að banna veiðar á dádýrum í Þýskalandi.

Síðan eru nokkrir stórmarkaðir sem grípa þetta mál á lofti og nýta í markaðssetningu því að þeir geta sagt: Við ætlum að klekkja á þessum ljótu Íslendingum sem drepa þessa fallegu, sætu hvali — og kaupið af okkur. Eru alþjóðaskuldbindingarnar og ímynd Íslands sem er nefnd þarna það að þóknast stórmörkuðum í Evrópu og Þjóðverjum til að ná fram því að setja það skilyrði fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu að Ísland veiði ekki hvali?

Svo er það spurningin með sjálfbæra nýtingu dýra. Ég held ekki að nokkur maður telji að Íslendingar ofveiði hvali við Ísland. Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann að Íslendingar ofveiði hvali við Ísland og það sé ekki gert í samræmi við bestu vísindi nákvæmlega eins og dádýraveiðar Þjóðverja í skógum Bayern?