141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

gagnger endurskoðun á skipulagi og forsendum hvalveiða.

83. mál
[18:55]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vildi koma nokkrum ábendingum að varðandi þessa tillögu til þingsályktunar um gagngera endurskoðun á skipulagi og forsendum hvalveiða sem hv. þm. Mörður Árnason hefur mælt fyrir.

Í fyrsta lagi skal það tekið fram að Alþingi gefur heimild til hvalveiða, þ.e. að hér megi stunda hvalveiðar, en líka skal fara eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar sem leggur fram mat á stærð á einstökum hvalastofnum sem koma inn í efnahagslögsögu Íslands og geta komið til álita til veiða. Hafrannsóknastofnun hefur gefið út tölur um hvað megi veiða mörg dýr til að veiðar séu sjálfbærar eða stofninn þoli þær. Tölur og tillögur Hafrannsóknastofnunar hafa hvorki verið vefengdar né gagnrýndar af Alþjóðahvalveiðiráðinu. (Gripið fram í.) Það er bara þannig, hv. þingmaður, að það hefur ekki verið gerð athugasemd við vísindalegar rannsóknir og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í þeim efnum. Veiðarnar eru í sjálfu sér sjálfbærar eða þær tillögur sem Hafrannsóknastofnun leggur til í þeim efnum.

Hitt er svo annað mál, hvað veitt er, og íslenska ríkið stundar ekki hvalveiðar sem slíkar. Hvalveiðar verða aðeins stundaðar innan þeirra marka að einhver sjái sér efnahagslegan hag í því. Það getur verið álitamál og ákvörðun viðkomandi útgerðarfyrirtækja hvort þau gera út á hval eða ekki.

Mikilvægt er að hafa í huga í þessu sambandi að hvalir eru hluti af sjávarauðlindinni og það er meginatriði að geta bæði stýrt og verndað þessa auðlind á sjálfbæran hátt. En það skiptir líka máli að standa vörð um þjóðarrétt strandríkja til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt og eiga þann rétt, hvort sem það er síðan gert eða ekki. Umræðan um hvali eða aðrar nýtanlegar náttúruauðlindir í hafinu umhverfis strandríkin skiptir máli, að strandríkin hafi sem sagt þennan rétt og fari að sjálfsögðu eftir alþjóðlegum skilyrðum í þeim efnum og það hefur Ísland gert. Á hinn bóginn er mjög varhugavert að ætla að gefa frá sér þennan rétt. Við sjáum nú hversu mikilvægur hann er í makrílnum. Við tökum einmitt rétt okkar til makrílveiða sem strandríki. Að sjálfsögðu erum við líka hluti af þeim strandríkjahópi sem nýtir makrílinn og berum að sjálfsögðu sameiginlega ábyrgð.

Hvað varðar hvali er það fyrst og fremst í efnahagslögsögu Íslendinga sem tölulegar yfirlýsingar eru gefnar af Hafrannsóknastofnun um hvað megi veiða án þess að það hafi áhrif á stærð stofnsins. Þetta tel ég mikilvægt að komi fram, herra forseti. Þegar menn láta að því liggja að þær hvalveiðar sem heimilt er að stunda hér séu ekki náttúrulega sjálfbærar eða fylgi lögmálum í þeim efnum þá er það rangt.

Ég virði tilfinningaleg rök gagnvart veiðum á hvölum og reyndar öðrum dýrum. Það geta verið tilfinningaleg rök í því sambandi sem eiga fyllilega rétt á sér, hvort sem þeim er beitt eða ekki, en heimildin til að nýta náttúruauðlindir í efnahagslögsögu landsins á sjálfbæran hátt, samkvæmt þeim alþjóðaskilmálum sem við höfum undirgengist í þeim efnum, er mjög mikilvæg.

Ég vil örstutt minnast á það, herra forseti, að það hefur einmitt verið talað um að vernda svokallaðar frumbyggjaveiðar á hval. Mér fannst þetta hugtak mjög athyglisvert þegar ég var ráðherra þangað til ég komst að raun um það að frumbyggjar vilja í sjálfu sér ekkert frekar veiða hvalategundir sem eru í útrýmingarhættu en aðrir heldur eiga þeir rétt á að vernda og nýta náttúruauðlindir sínar á sjálfbæran hátt. Það styrkti mig í þeirri skoðun og því mati að það væri mikilvægt að standa vörð um þann rétt sem við eigum til að vernda og nýta þessar auðlindir okkar á sjálfbæran hátt. Það væri þá á valdi fyrirtækjanna eða þeirra sem stunda þær veiðar hvort þeir teldu efnahagslegan ávinning af því en heimildin væri fyrir hendi.

Það er líka rétt að minnast á það hér, og við þekkjum það, að hvalveiðar eru eitt af því sem Evrópusambandið gerir kröfur um að við hættum. Evrópusambandið er tiltölulega eitt í tengslum við strandríki hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu hvað þetta varðar en gerir sem sagt kröfur á Íslendinga um að þeir hætti hvalveiðum og eru þær kröfur hluti af aðlögunar- og inngöngukröfum í Evrópusambandið. Það gerir það enn minna fýsilegt að ganga undir kröfur Evrópusambandsins að banna hvalveiðar.

Herra forseti. Ég árétta að það er mikilvægt að við höfum þennan rétt. Hann snertir allar náttúruauðlindir í hafinu umhverfis Ísland og okkur ber jafnframt að vernda og nýta þær á sjálfbæran hátt, en réttinn höfum við.