141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

hernaður NATO í Líbíu.

[13:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að rifja upp fyrir hv. þingmanni að þegar löndin sem fóru inn í Líbíu sameinuðust um það var það rætt í þessum sölum. Á þeim tíma sem ég tók þá ákvörðun að beita ekki neitunarvaldi innan Atlantshafsbandalagsins höfðu fulltrúar allra flokka, þar á meðal Framsóknarflokksins, lýst afstöðu sinni mjög skýrt í þessum sölum. Þeir töldu að með þessum hætti ætti að reyna að skikka til friðar það ástand sem þar ríkti svo það sé algjörlega ljóst hér. Það þýðir ekki fyrir hv. þingmann að koma hingað upp og tala um hernað minn gegn Líbíumönnum.

Að öðru leyti veit hv. þingmaður að það eru róstur í Líbíu og það er alveg ljóst að ýmiss konar hermdarverkasamtök hafa reynt að notfæra sér það ástand til að ná þar fótfestu. Við sáum það í Bengasí á dögunum þegar svo virtist sem skipulögð samtök hefðu farið þar með ofbeldi á hendur bandaríska sendiherranum, þau drápu hann og þrjá aðra. Við fordæmdum það.

Að því er varðar síðan stöðuna í Sýrlandi er rétt að það komi algjörlega skýrt fram að Atlantshafsbandalagið hefur lýst því mjög skýrt yfir að það hafi engan vilja til að fara með hernaði eða íhlutun inn í Sýrland. Hitt er jafnljóst að þar er borgarastyrjöld, á fjórða tug þúsunda manna hefur verið drepinn þar og ástandið versnar dag frá degi. Við sáum það síðast að verið er að beita flugvélum með klasasprengjur gegn saklausum borgurum og það er spurning hversu lengi alþjóðasamfélagið lætur þetta afskiptalaust. Eins og hv. þingmaður veit eru engir möguleikar á því, eins og fyrirkomulagi öryggisráðs er komið, að það verði með nokkrum hætti hægt að ná samstöðu þar til að grípa til einhvers konar hernaðaraðgerða.

Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að við látum rödd okkar heyrast, hvetjum til friðar hvar sem er og látum eitthvað af hendi (Forseti hringir.) rakna til að lina þjáningar þeirra sem þeim sæta.