141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

endurgreiðsla öryrkja til LÍN.

[13:57]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á máli sem tengist Lánasjóði íslenskra námsmanna og lýtur að þjónustu sjóðsins við öryrkja sem þurfa á sérstakri fyrirgreiðslu að halda vegna fjárhagsörðugleika. Þannig er mál með vexti að í 8. gr. laga um lánasjóðinn er heimild til stjórnar sjóðsins að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara af ýmsum ástæðum og valda lánþega eða fjölskyldu hans verulegum fjárhagsörðugleikum. Á grundvelli þessarar heimildar hefur lánasjóðurinn veitt í ákveðnum tilvikum öryrkjum í verulegum fjárhagsörðugleikum undanþágu frá endurgreiðslum samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins.

Nú bregður svo við að ef umræddir öryrkjar komast á ellilífeyrisaldur, verða 67 ára gamlir, fellur þessi undanþága úr gildi og viðkomandi einstaklingar eru krafðir um fulla endurgreiðslu. Ástæðan er sú að við þessi tímamót eru viðkomandi einstaklingar ekki lengur skilgreindir sem öryrkjar í bótakerfinu heldur lífeyrisþegar. Fjárhagsstaða þessara einstaklinga er að sjálfsögðu jafnslæm, ekkert hefur breyst hvað varðar hagi þeirra. Það eina sem gerðist var að þeir voru svo óheppnir að eiga afmæli.

Nú langar mig að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort ekki sé sanngirnismál að nota tækifærið á þessu hausti þegar nýtt frumvarp til breytinga á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna kemur inn í þingið og gera breytingar á þessu fyrirkomulagi þannig að öryrkjar sem skulda námslán þurfi ekki að þola að grundvellinum sé kippt undan fjárhag þeirra með einu pennastriki þegar þeir ná 67 ára aldri.