141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

endurgreiðsla öryrkja til LÍN.

[13:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina en hann bendir eiginlega á að almennt sé kerfið okkar þannig uppbyggt að öryrkjar breytist í ellilífeyrisþega við tiltekinn aldur og séu þá í raun ekki lengur öryrkjar samkvæmt skilgreiningum kerfisins. Þetta er nokkuð sem þyrfti að skoða í víðara samhengi en snýr að Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það tengist ýmsu öðru sem þessum hópi viðkemur þannig að ég held að það væri full ástæða til að skoða það.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður nefnir um lánasjóðinn stendur yfir endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég á von á því að frumvarp um sjóðinn líti dagsins ljós í næsta mánuði. Þar er verið að kostnaðarmeta tillögu um að annars vegar falli námslán niður við 67 ára aldur og hins vegar ábyrgðir. Það þarf þó að hanga á því hvenær viðkomandi hóf nám, þ.e. að hann sé búinn að greiða til baka eitthvert tiltekið hlutfall af námslánum.

Þessi tillaga hefur komið upp og tengist umræðu sem hv. þingmaður þekkir eins og ég og hefur verið bæði innan sjóðsins og úti í samfélaginu. Það er auðvitað ekki verið að leggja álögur á þennan hóp. Sérstaklega í tilfelli ábyrgðarmannanna finnst mér þetta mikið réttlætismál. Þar með var ákveðið að skoða heildarstöðu þessa hóps. Þingsályktunartillögur um sama efni hafa komið fram, til að mynda frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, þannig að þetta er til skoðunar í því frumvarpi sem nú er í smíðum.