141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

endurgreiðsla öryrkja til LÍN.

[14:01]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svarið. Eins og fram kom í máli ráðherra er væntanlegt nýtt frumvarp í þingið um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem byggir að hluta til á stefnumótandi tillögum nefndar á vegum ráðherra. Fram kom, eins og hæstv. ráðherra benti á, að tvær tillögur tengjast þessum hópi, annars vegar ákvæði um að ábyrgðir ábyrgðarmanna falli niður þegar 67 ára aldri er náð og hins vegar að námslán skuli ætíð falla niður á því ári er skuldari nær 67 ára aldri. Ætla má að slík aðgerð mundi kosta ríkissjóð og lánasjóðinn verulega fjármuni en það er hins vegar mikilvægt að skoða hvaða svigrúm er til að koma til móts við þá lífeyrisþega og öryrkja sem sannarlega eiga í miklum erfiðleikum með að standa skil á endurgreiðslum námslána.

Ég vil því spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvar forgangsröðun hennar liggur þegar kemur að frekara svigrúmi fyrir þann hóp sem um ræðir.