141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

endurgreiðsla öryrkja til LÍN.

[14:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er góð spurning. Ég vil fyrst sjá kostnaðarmatið á tillögunum áður en ég tek endanlega afstöðu til þeirra. En forgangsröðun mín mundi vera í þágu þeirra tekjulægri, þ.e. þeirra sem eiga erfiðara um vik að greiða. Mér finnst ábending hv. þingmanns, sem snýr sérstaklega að öryrkjum, eiga fullan rétt á sér inn í þá umræðu um að sérstakt tillit verði tekið til þeirra sem ekki hafa haft færi á að afla sér tekna sökum örorku. Þeir hafa sem sagt verið utan vinnumarkaðar og hafa þar af leiðandi haft lítið færi á að safna sér sjóðum til að mæta elliárunum. Ég tel því eðlilegt að við skoðum tekjustöðu fólks og að hún spili inn í þá ákvörðun sem tekin verður.