141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

refsiaðgerðir ESB gegn Íslendingum vegna makríldeilunnar.

[14:09]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmanni til upplýsingar hefur málið verið margrætt í ríkisstjórn. Ríkisstjórnin hefur fylgst mjög reglubundið með þessari alvarlegu deilu og gert er grein fyrir nánast hverju og einu skrefi í henni, bæði fyrir og eftir fundinn í London og síðan viðbrögðum okkar að öðru leyti. Til viðbótar þeim orðsendingum sem formlega hafa verið lagðar fram af okkar hálfu og samskiptum sendiherra okkar í Brussel o.s.frv. hefur málið verið tekið upp í tvíhliða samskiptum við velflest ef ekki öll aðildarríki ESB. Við höfum notað allar leiðir sem færar eru og venjulegar eru í svona tilviki til að koma okkar málstað á framfæri, bæði marghliða og tvíhliða.

Það er sjálfsagt mál að upplýsa utanríkismálanefnd betur um það á nýjan leik hvað á dagana hefur drifið frá því að við fórum yfir stöðu málsins þar síðast. Sumt af því er ágætt að ræða í trúnaði í utanríkismálanefnd eðli málsins samkvæmt. (Forseti hringir.) Tefur þetta fyrir viðræðum um sjávarútvegsmál? Ja, það fer að verða erfitt að komast að annarri niðurstöðu í ljósi þeirra miklu tafa sem orðið hafa á því að sjávarútvegskaflinn opnist, sem við höfðum ástæðu til að ætla að væri að mestu leyti tilbúinn á vordögum, hann situr fastur enn. (Forseti hringir.) Þar liggur að minnsta kosti einhver fiskur undir steini.