141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

skýrsla fyrrverandi yfirlögregluþjóns um búsáhaldabyltinguna.

[14:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þennan lið til að vekja athygli virðulegs forseta á því að Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, talaði á opnum fundi í hádeginu í dag þar sem hann sagði að mótmælin hér hefðu verið svo alvarleg að ef nokkrir mótmælendur hefðu komist í þingsal hefði Alþingishúsið verið yfirtekið á sínum tíma. Hann sagði á fundinum að ýmsir hefðu fundið árásina á þinghúsið léttvæga, að hún hefði átt að falla undir venjuleg mótmæli.

Í lok fundar var Geir Jón beðinn um að nafngreina þá þingmenn sem hann hefur áður sagt (Forseti hringir.) að hafi verið í samskiptum við mótmælendur …

(Forseti (ÁRJ): Fundarstjórn forseta.)

Já, ég er að reyna að koma því á framfæri við virðulegan forseta að þetta séu mjög alvarleg ummæli frá fyrrverandi yfirlögregluþjóni sem var mjög mikið á vettvangi í mótmælunum á sínum tíma. (Gripið fram í.) Í ljósi þess að Geir Jón Þórisson hefur unnið skýrslu fyrir lögregluembættið í Reykjavík um þessi mál tel ég einboðið að forseti beiti sér fyrir því að þingmenn fái þá skýrslu (Forseti hringir.) þannig að þeir alvarlegu atburðir sem lýst var verði þingheimi kunnir. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt (Forseti hringir.) í ljósi alls að gengið sé eftir því (Forseti hringir.) að þingið fái skýrsluna og geti fjallað um hana.