141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins.

[14:12]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Nú í júnímánuði kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um framlög og skuldbindingar ríkisins vegna fjármálafyrirtækja og stofnana eftir fall bankakerfisins haustið 2008. Skýrslan er tekin saman að beiðni Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, og vil ég þakka honum fyrir frumkvæði hans í þessu máli.

Til að takast á við kostnað vegna hrunsins hefur almenningur í landinu þurft að taka á sig skerðingu á þjónustu og finna hefur þurft nýja fjármuni til að fjármagna rekstur sjúkrahúsa, skóla og annarra þátta. Vissulega tóku erlendir kröfuhafar á sig stærstan skell í falli bankanna en ekki tókst að senda reikninginn alfarið út fyrir landsteinana. Ríkið tók á sig umtalsvert högg vegna gjaldþrots Seðlabankans og endurfjármögnunar bankanna og nú hefur Ríkisendurskoðun tekið saman hluta þess kostnaðar. Í skýrslunni kemur fram að hlutafjárframlag ríkissjóðs til nýju bankanna þriggja nam, þegar upp var staðið, 138 milljörðum kr. Vonir standa til þess að hluti þessara fjármuna endurheimtist en hins vegar er ekki ljóst hver staðan verður hvað Landsbankann snertir enda ekki búið að ljúka uppgjöri vegna erlendra innstæðna hans.

Höggið fyrir ríkissjóð var sérstaklega þungt er kom að Sparisjóði Keflavíkur, en þegar sparisjóðurinn var yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu var gengið út frá því að eigið fé hans væri 5 milljarðar kr. Verðmat sem síðar var gert sýndi fram á verri stöðu og var í ljósi þess var fallið frá því að endurreisa sparisjóðinn. Í stað þess var samið við nýja Landsbankann um yfirtöku og að ríkissjóður greiddi bankanum það sem upp á vantaði til að mæta neikvæðri eignastöðu sparisjóðsins. Ekki náðist samkomulag á milli aðila um mat eignanna og skilaði úrskurðarnefnd bindandi niðurstöðu í júní 2012 um að neikvæð staða sjóðsins væri 19,2 milljarðar að teknu tilliti til vaxta, eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, og nam kostnaður ríkisins vegna Sparisjóðsins í Keflavík 25 milljörðum kr.

Þá fjallar skýrslan um Seðlabanka Íslands en í skýrslunni segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Við fall bankanna 2008 varð Seðlabanki Íslands fyrir verulegu tjóni vegna lána bankans til fjármálafyrirtækja og nam staða þeirra samtals 345 milljörðum kr. í árslok 2008. Það sýndi sig að tryggingar að baki lánunum voru í mörgum tilvikum lélegar […] Áætlað tap Seðlabankans og ríkissjóðs vegna lánveitinga til bankakerfisins fyrir hrun var því samtals 267,2 milljarðar kr.“

Ríkisendurskoðun er svartsýn á endurheimtur þessara fjármuna og segir í skýrslunni að nokkur von sé til þess að ríkið geti endurheimt þá fjármuni sem runnið hafa til stóru bankanna þriggja, þ.e. með sölu á eignarhlutum eða arðgreiðslum. Hins vegar liggur fyrir að ríkið varð fyrir verulegum kostnaði vegna fyrirgreiðslu Seðlabankans við bankana fyrir hrun og þeir fjármunir eru væntanlega tapaðir. 267 milljarðar kr. sem eru kostnaður ríkisins við gjaldþrot Seðlabanka Íslands, rúmlega 800 þús. kr. á hvern Íslending.

Þá fjallar skýrslan um viðbrögð við hugsanlegu gjaldþroti Sjóvár – Almennra trygginga en svo segir í skýrslunni að stjórnvöld hafi talið rétt að „aðstoða félagið til að forða viðskiptavinum þess frá tjóni“. Í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá júní 2009 kom fram að vátryggingarekstur félagsins hefði verið með ágætum en að „fjárfestingarstarfsemi og tilteknar aðrar ráðstafanir fyrrum eigenda, stjórnar og lykilstarfsmanna hefðu komið félaginu í þrot“. Sjóvá – Almennar tryggingar voru í meirihlutaeigu Milestone-samstæðunnar sem tekin var til gjaldþrotaskipta árið 2009. FME benti á að ríkinu bæri ekki lagaleg skylda til að bjarga félaginu frá gjaldþroti en hins vegar var á það bent að gjaldþrot félagsins hefði alvarlegar afleiðingar fyrir viðskiptamenn félagsins sem mundu líklega tapa hluta af kröfum sínum og traust til vátryggingastarfsemi hér á landi mundi minnka til muna.

Heildartap ríkisins vegna sölunnar á Sjóvá getur þannig numið allt að 4,8 milljörðum kr. Það kemur Ríkisendurskoðun reyndar ekki mikið á óvart að ríkið skuli tapa á þessum viðskiptum enda greiddi ríkissjóður, eins og segir í skýrslunni, 11,5 milljarða kr. fyrir eignarhlut í félagi sem var með neikvæða eiginfjárstöðu og því í reynd gjaldþrota.

Ég vil rétt í lokin víkja aðeins að Lánasjóði landbúnaðarins og öðrum ríkisábyrgðum vegna bankanna sem fjallað er um í lokakafla þessarar skýrslu. Sú saga ber vott um ótrúleg vinnubrögð við einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Í skýrslunni segir:

„Ríkið bar á sínum tíma ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum banka og annarra lánastofnana sem voru í eigu þess. Þannig var ríkisábyrgð á öllum skuldabréfum sem þessir aðilar gáfu út. Þegar ríkisbönkunum var breytt í hlutafélög og þeir seldir hvíldu áfram á þeim skuldbindingar vegna þeirra skuldabréfa […] Landsbankinn keypti Lánasjóð landbúnaðarins af ríkinu árið 2005 og yfirtók eignir og skuldir sjóðsins en ríkisábyrgð var á skuldunum.“

Tap ríkisins vegna þessarar ríkisábyrgðar er 31 milljarður kr.

Ég þakka fyrir umræðuna. Það er mikilvægt að við fjöllum á yfirvegaðan hátt um það tjón sem íslenska ríkið og íslenskir skattborgarar hafa orðið fyrir vegna hruns bankanna og að við reynum að læra af þeim mistökum sem þar voru gerð. Ljóst er að tjón almennings hér á landi var umtalsvert, almenningur hefur þurft að taka á sig hærri skatta og lægra þjónustustig vegna áfallsins. En sömuleiðis er það ljóst, virðulegi forseti, að um langa hríð mun stór hluti tekna ríkissjóðs, þ.e. skattgreiðslur almennings og fyrirtækja í þessu landi, (Forseti hringir.) fara í að greiða vaxtakostnað af þeim fjármunum sem veittir voru til að endurreisa fjármálakerfið. Þar vega þyngst 267 milljarðar kr. vegna gjaldþrots Seðlabanka Íslands.