141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins.

[14:26]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna umræðu um þessa skýrslu og skýrslan sjálf er gagnlegt gagn til umræðu. Hún veitir ágætt yfirlit um það sem hún fjallar um, þ.e. beinan kostnað, eins og hann er núna metinn, vegna hruns fjármálakerfisins. Það er rétt að árétta, eins og reyndar kom fram í máli ráðherra áðan, að hún tekur ekki til þátta sem eru afleiðingar hrunsins. Þar af leiðandi má ekki gera þau mistök að líta svo á að hér sé einhver kvarði lagður á heildarkostnað íslensks samfélags eða íslenska þjóðarbúsins vegna þeirra atburða.

Hér er ekki lagt mat á afleiðingar samdráttar í efnahagslífinu, stóraukins atvinnuleysis, verðbólgunnar, áhrifa sem þetta hafði á trúverðugleika landsins, afleiðingar af niðurskurði og skattalækkunum, lækkun á lánshæfismati Íslands og stóraukins vaxtakostnaðar vegna mikilla skulda. Skýrslan er engu að síður gagnleg til aflestrar við hliðina á öðrum gögnum þar á meðal skýrslu sem ég lagði fram um endurreisn viðskiptabankanna.

Skýrslan staðfestir að langstærsti einstaki reikningur hrunsins er gjaldþrot Seðlabanka Íslands. Í skýrslunni segir á bls. 6, með leyfi forseta:

„Kröfurnar sem ríkissjóður yfirtók frá Seðlabankanum námu þannig samtals 367,9 milljörðum kr. en mat á þeim benti til þess að meiri hlutinn væri tapaður eða mundi tapast. Hjá ríkissjóði voru þar af leiðandi gjaldfærðir 192,2 milljarðar kr. sem tapaðar kröfur. Áætlað tap Seðlabankans og ríkissjóðs vegna lánveitinga til bankakerfisins fyrir hrun var því samtals 267,2 milljarðar kr.“

Með öðrum orðum: Seðlabankinn var búinn að veita bönkunum fyrirgreiðslu fyrir hrun upp á um fjórðung af landsframleiðslu Íslands eins og hún var á árinu 2008.

Varðandi Saga Capital, Askar Capital og VBS staðfesti skýrslan það sem ýmsum gengur erfiðlega að ná að þar var, eins og þar segir, ekki um að ræða nýjar lánveitingar ríkisins eða Seðlabankans til þessara fyrirtækja heldur var eldri kröfum á hendur þeim breytt í lán til lengri tíma.

Varðandi Sjóvá – Almennar tryggingar er fjallað um það mat Fjármálaeftirlitsins að gjaldþrot félagsins hefði alvarlegar afleiðingar á (Forseti hringir.) viðskiptamenn þess sem mundu líklega tapa hluta af kröfum sínum og traust til vátryggingarstarfsemi hér á landi mundi minnka til muna, áhrifin á endurtryggingasamninga annarra vátryggingafélaga yrðu neikvæð o.s.frv. (Forseti hringir.) Í það heila tekið er ég ákaflega sáttur við að þessi skýrsla gerir með sanngjörnum og trúverðugum hætti grein fyrir og (Forseti hringir.) fer yfir þær ráðstafanir sem gripið var til í fjármálakerfinu eftir hrun og hallar þar að mínu mati ekki á einn eða neinn.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutíma.)