141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins.

[14:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Verkefni stjórnvalda eftir hrun var tvíþætt: Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að einkaskuldum yrði komið yfir á skattgreiðendur. Í öðru lagi að ná fram verulegri lækkun skulda heimila og fyrirtækja til að tryggja hagvöxt í hagkerfinu. Tap skattgreiðenda vegna Sjóvár, Saga Capital, VBS-Fjárfestingarbanka og Askar Capital mun verða um 57 milljarðar. Auk þess falla um 26 milljarðar á skattgreiðendur vegna sparisjóðanna.

Kostnaður skattgreiðenda vegna endurreisnar bankakerfisins er enn ekki kominn á hreint en mun ráðast af söluvirði eignarhluta ríkisins í nýju bönkunum og arðgreiðslum þeirra.

Við endurreisn bankakerfisins var eigendum nýju bankanna gefið veiðileyfi á skuldsett heimili og fyrirtæki með samningum um hlutdeild í endurheimtum á eignasöfnum sem voru niðurfærð umtalsvert þegar þau voru færð úr gömlu bönkunum yfir í nýju bankana. Við sitjum því uppi með atvinnulíf og heimili sem eru allt of skuldsett til að fjárfesta. Hagvöxtur hefur því verið minni og lífskjör batna hægar en svigrúm var fyrir. Ekkert gengur að ná fram nauðsynlegri skuldaleiðréttingu heimila og fyrirtækja með verðtryggð og gengistryggð lán. Á meðan herða bankarnir innheimtuaðgerðir sem munu á næsta ári renna í vasa vogunarsjóða sem arðgreiðslur. Skjaldborg stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar um verðtrygginguna hefur jafnframt tryggt fjármagnseigendum aðgang að ævisparnaði landsmanna sem eru með skuldsettar fasteignir.

Frú forseti. Endurreisn bankakerfisins veldur vonbrigðum þar sem hún hefur dregið úr efnahagsbatanum og aukið á misskiptinguna.