141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins.

[14:41]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu og málefnalegt innlegg frá þingmönnum. Í máli ráðherra kom fram að tjón ríkisins var meira vegna þess að við höfðum krónu en ef við hefðum haft evru á sínum tíma. Það hefur líka komið fram í rannsóknum á hruninu að 70% af þeirri kjararýrnun sem heimilin fundu fyrir í kjölfar hrunsins megi rekja til falls krónunnar.

Sumir telja að það sé gott að geta fellt gengi krónunnar en um leið eru þeir að rýra kjör almennings eins og Seðlabankinn segir í nýútkominni skýrslu. Það er rangt að það sé betra fyrir okkur að geta fellt gengið til að bregðast við áföllum. Lækningin er í raun og veru verri en sjúkdómurinn, segir orðrétt í skýrslu Seðlabankans. Að halda í örmyntina eykur sveiflu hagkerfisins frekar en hitt.

En gott og vel, kæru þingmenn, við getum deilt um það lengi hvort betra hefði verið fyrir okkur að hafa krónuna eða evruna í hruninu. Mestu máli skiptir hvernig við ætlum að haga málum hér til framtíðar. Það eigum við að geta tekið með okkur úr þessari umræðu. Hvernig ætlum við að haga málum í þessu landi til framtíðar hvað snertir til dæmis myntina?

Gefur eitthvað í framtíðarsýn þeirra flokka sem neita því staðfastlega að íhuga upptöku annarrar myntar til kynna að við getum losað höft, lækkað fjármagnskostnað fyrirtækja, minnkað verðtryggingu með að minnka vægi verðtryggingar? Nei, mér finnst þá hinu ágæta flokka sem ekki vilja ljá máls á aðild að Evrópusambandinu skorta fullkomlega að leggja á borð fyrir kjósendur þá framtíðarsýn sem þeir vilja hafa í myntmálum þjóðarinnar. Með hvaða hætti vilja þeir umgangast krónuna til framtíðar? Vilja þeir hafa hana í höftum eða vilja þeir setja hana aftur á flot, setja hana á markað og láta gengi hennar ráðast af kaupum og sölu?

Stuðningsmenn nýrrar myntar hafa bent á aðrar leiðir. Aðild að Evrópusambandinu getur fært okkur lægri vexti, afnám verðtryggingar og hagvöxt í þessu landi eins og skýrsla Seðlabankans dregur svo skýrt fram þar sem framtíðarkostir okkar eru til umfjöllunar.

En gott og vel. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Kannski er komið efni í aðra umræðu um hvert beri að halda næst.