141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[14:55]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að í ljósi hlutverks Byggðastofnunar og tilgangsins með henni hefði alveg eins mátt búast við því að Byggðastofnun hefði að breyttu breytanda farið verr út úr þessu en flestar ef ekki allar aðrar fjármálastofnanir vegna þess að hlutverk Byggðastofnunar er það sem það er, þ.e. að reyna að standa á bak við atvinnuuppbyggingu á jaðarsvæðum í landinu þar sem veikburða aðilar eru oft að glíma við erfið skilyrði þar sem veð eru kannski ekki jafngóð, ef má orða það svo, og t.d. í fasteignum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eiga allir að vita. Um það hefur vonandi verið sæmileg samstaða að þessi stofnun fer með þetta hlutverk en það er vandasamt og má alltaf búast við því að afföll verði jafnvel á venjulegum tímum þegar menn fara með svona hlutverk, hvað þá þegar stóráföll verða eins og hrunið hafði í för með sér.

Í ljósi þess held ég að það megi alveg eins snúa þessu við og segja að Byggðastofnun hafi í reynd staðið býsna vel og ábyrg að sínum málum að rýrnun eignasafnsins þar skuli þó ekki hafa orðið enn meiri en þetta. Mér er ekki kunnugt um annað en að öll starfsemi Byggðastofnunar, þar með talið útlánastarfsemin, hafi verið í fullu samræmi við fjárheimildir undanfarinna ára og þess hafi séð stað í áætlunum bara rétt eins og hefur átt við um Landsvirkjun eða aðra slíka aðila þar sem ríkið stendur á bak við lánastarfsemi eða lántökur. Ég leyfi mér því að fullyrða að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af þeim þætti og reglubundið hafa málefni Byggðastofnunar verið hér á borðum hv. þingmanna við fjárlagaafgreiðslu o.s.frv. þannig að það má vísa til þess.