141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[14:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum núna um Byggðastofnun er á margan hátt dálítið athyglisvert og merkilegt frumvarp. Efnisatriði þess eru kannski í sjálfu sér einföld. Byggðastofnun hefur áður heyrt beint undir iðnaðarráðuneytið og ákvarðanir hennar hafa verið kæranlegar til ráðuneytisins en nú er lagt til að klippt verði á þetta kærusamband þannig að sá sem fær úrlausn sinna mála með einhverjum hætti, neikvæðum eða jákvæðum, hjá Byggðastofnun á ekki möguleika á því eftir það að kæra niðurstöðuna ef honum eða henni líkar hún ekki.

Rökin sem færð eru fyrir þessu eru algjörlega praktísk. Reynt er einfaldlega að færa fyrir því rök í athugasemdum við frumvarpið og í ræðu hæstv. ráðherra að ekki sé eðlilegt að hafa þetta með þessum hætti. Vísað er til þess að ýmsar aðrar stofnanir að sönnu sem líkt er á komið fyrir og Byggðastofnun hafi ekki þetta kæruferli, ekki þetta kærusamband við æðra stjórnvald, sem í þessu tilviki er atvinnuvegaráðuneytið núorðið, og þess vegna sé ástæða til að klippa á þetta samband líka varðandi Byggðastofnun. Einnig eru færð fyrir því praktísk rök að þekkingin sem liggur til grundvallar ákvörðunum Byggðastofnunar sé til staðar í stofnuninni sjálfri en ekki endilega í ráðuneytinu og það er alveg örugglega hárrétt.

Það eru einnig rök í málinu að bent er á að þeir sem eru núna í stjórn stofnunarinnar skuli lúta hæfisreglum sem Fjármálaeftirlitið hefur sett. Allt eru þetta auðvitað rök fyrir því að ekki sé ástæða til að halda því kærusambandi við á milli Byggðastofnunar og nú atvinnuvegaráðuneytisins. Síðan liggur það undir og blasir við að ef um er að ræða miklar kærur sem ganga frá einni stofnun til ráðuneytis kunni það að setja nánast alla starfsemi ráðuneytisins í hers hendur ef það þyrfti að fara að fást við efnistök á málum sem hafa kannski fengið ítarlega meðhöndlun hjá lægra settu stjórnvaldi. Vitaskuld getur maður séð fyrir sér að það gæti orðið erfitt fyrir ráðuneyti að drukkna nánast í kærum sem bærust frá lægra settu stjórnvaldi.

Nú spurði ég hæstv. iðnaðarráðherra, sem mælti fyrir þessu máli í fyrra, hvort hún hefði upplýsingar um það hvort um væri að ræða mikið safn af kærum sem borist hefðu vegna meðhöndlunar Byggðastofnunar til iðnaðarráðuneytisins. Svarið var að mjög fáar kærur hefðu komið með þeim hætti inn á borð iðnaðarráðuneytisins. Í raun og veru er því ekki hægt að segja að sporin hafi verið að hræða heldur miklu frekar að menn eru að girða fyrir það að þetta ástand haldi áfram. Þetta kunna að vera á margan hátt sannfærandi rök og út af fyrir sig ætla ég ekki að gera lítið úr því og er þá mál sem menn þurfa að taka efnislega afstöðu til.

Það sem mig langar hins vegar til að ræða um við hæstv. ráðherra er í raun og veru spurningin um hver hin stjórnsýslulega staða stofnunarinnar er í dag. Og nú ætla ég að hverfa aðeins aftur í tímann.

Þannig var að árið 1999 var gerð breyting á lögum um Byggðastofnun. Hún hafði áður heyrt undir forsætisráðuneytið. Hún hafði verið svokölluð sjálfstæð stofnun og í stjórn hennar var kosið héðan af Alþingi. En með frumvarpi sem lagt var fram á árinu 1999 var gert ráð fyrir að hún yrði ekki lengur sjálfstæð stofnun heldur svokölluð sérstök stofnun og heyrði undir iðnaðarráðuneytið með þeim rökum að þá yrði tekið upp þetta kærusamband milli hinnar nýju stofnunar, hinnar sérstöku stofnunar, eins og það heitir á stjórnsýslulegu máli, og síðan iðnaðarráðuneytisins.

Nú vil ég kannski auka hæstv. atvinnuvegaráðherra dálítið leti og rifja örstutt upp úr þeirri umræðu sem hæstv. ráðherra tók þátt í á sínum tíma. Þær umræður voru á margan hátt skrautlegar, ekki endilega það sem hæstv. núverandi ráðherra sagði, heldur bara af ýmsum ástæðum. Hæstv. núverandi ráðherra gerði sér talsverðan mat úr því að verið væri að breyta Byggðastofnun úr sjálfstæðri stofnun í eigu íslenska ríkisins, sem heyrði undir forsætisráðherra, í sérstaka stofnun. Hæstv. ráðherra sagði, með leyfi virðulegs forseta, og hefst nú lesturinn:

,,Og það má til sanns vegar færa, þetta verður afar sérstök stofnun ef þessar breytingar verða gerðar. — „Byggðastofnun er sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins …“.“

„Nei, heyrir undir yfirstjórn iðnaðarráðherra þurfti það að vera, og það hefur þeim framsóknarmönnunum dottið í hug að læða inn, og síðan á þetta að vera sérstök stofnun í staðinn fyrir sjálfstæð stofnun.“

Nú er rétt til að hafa hið sagnfræðilega samhengi ljóst að iðnaðarráðuneytið var undir forsæti framsóknarmanna á þeim tíma.

Hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sagði um þessa hluti það sem ég hygg að eigi dálítið erindi inn í þessa umræðu eins og ég er að leggja hana hérna upp. Með leyfi virðulegs forseta, sagði hæstv. þáverandi forsætisráðherra:

„Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Byggðastofnun heyri undir iðnaðarráðherra og að komið verði á beinu stjórnsýslusambandi milli stofnunarinnar og iðnaðarráðuneytisins. Er tillaga um það m.a. gerð í samræmi við niðurstöðu stjórnsýsluendurskoðunar á Byggðastofnun sem birtist í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1996. Þar kom m.a. fram að eðlilegt væri að stjórnsýsluleg staða Byggðastofnunar yrði tekin til athugunar og komið yrði á stjórnsýslusambandi milli ráðherra og stofnunarinnar. Samkvæmt frumvarpinu er því lögð til sú breyting á stjórnskipulegri stöðu stofnunarinnar að iðnaðarráðherra fari með yfirstjórn Byggðastofnunar og að stofnunin og stjórn hennar beri ábyrgð á störfum sínum gagnvart ráðherra. Með þessu móti verður ráðherra jafnframt ábyrgur á málefnum stofnunarinnar, bæði á grundvelli laga um ráðherraábyrgð og gagnvart Alþingi, en fram til þessa hefur lagastaðan verið sú að enginn hefur borið slíka ábyrgð gagnvart þinginu.“

Það var vegna þess að stofnunin hafði verið sjálfstæð. Nú var sem sagt verið að gera hana sérstaka og búa til þetta beina samband, kærusamband milli stofnunarinnar og ráðuneytisins og þar með að færa hina pólitísku ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar yfir á herðar viðkomandi fagráðherra. Grundvallaratriðið í því sambandi var það að sú stofnun væri í þessu beina kærusambandi.

Nú ætla ég að halda áfram lestrinum, með leyfi virðulegs forseta:

„Það hefur því ekki heldur sjálft getað haldið uppi því eftirliti sem stjórnskipunin gerir almennt ráð fyrir að þingið hafi með stjórnvöldum. Jafnframt gefst þá kostur á að skjóta ágreiningi um ákvarðanir stofnunarinnar til ráðherra sem æðra stjórnvalds en slík kæruleið hefur ekki verið fyrir hendi. Í samræmi við þetta er lagt til að stjórn stofnunarinnar þiggi umboð sitt frá ráðherra í stað Alþingis, enda er það sú skipan sem íslensk stjórnskipan gerir almennt ráð fyrir og nauðsynlegt að haga því svo eigi ráðherra að geta borið ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar gagnvart þinginu.“

Hér finnst mér vera komið nefnilega að kjarna málsins, það er þessi stjórnskipulega staða Byggðastofnunar eins og hún hefur verið alveg frá árinu 1999. Hún hefur verið sérstök stofnun, hún hefur ekki verið sjálfstæð stofnun. Hin pólitíska ábyrgð er á hendi hæstv. fagráðherra hverju sinni, iðnaðarráðherra, nú hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, og forsendan fyrir því er sú, eins og það er útskýrt þarna og meðal annars vitnað til skýrslu Ríkisendurskoðunar, að þetta kærusamband sé til staðar.

Nú er verið að klippa á þetta kærusamband. Fyrir því eru færð rök, mestan part að því er mér virðist praktísk rök, og við skulum hlusta á þau, en þá tel ég algjörlega óhjákvæmilegt, ef menn stíga þetta skref, að menn skoði miklu betur en gert er í þessu frumvarpi hina nýju stjórnskipulegu stöðu Byggðastofnunar. Ég tel að hv. umhverfis- og samgöngunefnd, sem fær þetta mál væntanlega til umfjöllunar, þurfi að fara ofan í það og átta sig aðeins betur á þessu.

Ég tek eftir því að umhverfis- og samgöngunefnd í fyrra sendi frá sér nefndarálit með breytingartillögu þó að málið hafi ekki hlotið afgreiðslu. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að ákvarðanir lægra setts stjórnvalds eru kæranlegar til æðra stjórnvalds, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 1. gr. laga um Byggðastofnun kemur fram að stofnunin sé sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins sem heyri undir yfirstjórn ráðherra. Í athugasemdum við frumvarpið kemur einnig fram að Byggðastofnun sé lægra sett stjórnvald gagnvart ráðherra. Meginregla stjórnsýslulaga um kæruheimild ákvarðana lægra settra stjórnvalda til æðra setts stjórnvalds á því við um Byggðastofnun en með frumvarpinu er lagt til að það kærusamband verði rofið.

Nefndin geldur varhuga við því að réttaröryggi borgara og fyrirtækja í landinu sé skert með því að aðilar mála sem varða lánveitingar, ábyrgðir og umsýslu þeirra fái ekki endurskoðun þeirra á tveimur stjórnsýslustigum eins og meginregla stjórnsýsluréttar kveður á um. Þá telur nefndin einnig að stíga þurfi varlega til jarðar þegar endurskoðunarvald og ábyrgð æðra setts stjórnvald gagnvart undirstofnunum sínum er vikið til hliðar.“

Hér er sem sagt komið alveg að kjarna málsins. Hins vegar kaus umhverfis- og samgöngunefnd ekki að hafna frumvarpinu þrátt fyrir þau varnaðarorð sem þarna koma fram heldur lætur duga að setja inn ákvæði sem síðan kemur fram í frumvarpinu núna, þ.e. að reglur stjórnar Byggðastofnunar um lán og ábyrgðarveitingar skuli hafa hlotið staðfestingu ráðherra áður en þær öðlast gildi. Þetta er auðvitað mjög veikt skref, það sjá allir að þetta er mjög stutt skref. Það er þá bara einfaldlega þannig að Byggðastofnun setur sér einhverjar reglur um lán og ábyrgðarveitingar. Þær reglur eru lagðar fyrir hæstv. ráðherra sem verður að staðfesta þær og gefa út einhvern úrskurð eða eitthvert ígildi þess áður en þær reglur taka síðan gildi, en að öðru leyti er þá stofnunin hún sjálf, hún á sig sjálf í raun og veru.

Ég held að út úr þessu séu kannski ekki alveg einfaldar leiðir en ég tel hins vegar að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að finna þær vegna þess að verið er að stíga þetta skref því að í raun og veru er verið að breyta eðli stofnunarinnar. Verið er að gera hana á vissan hátt sjálfstæða með einhverjum hætti vegna þess að verið er að stíga það skref að klippa á það kærusamband sem stofnað var til árið 1999 á milli ráðuneytisins og stofnunarinnar án þess að menn hafi kannski alveg lokið þeirri vinnu. Þess vegna vildi ég leggja þessar umþenkingar mínar inn í umræðuna áður en lengra er haldið þannig að umhverfis- og samgöngunefnd geti tekið tillit til þessa. Ég tel að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að farið sé dýpra ofan í málið en mér sýnist nefndin hafa haft tækifæri til eða gefið sér tíma til að gera í fyrra. Menn þurfa að leita álits stjórnsýslusérfræðinga og slíkra aðila til að fara ofan í þessi mál til að átta sig á því í rauninni hver sé orðin núna með þessum breytingum, ef þetta verður samþykkt, raunveruleg staða stofnunarinnar í stjórnsýslulegu tilliti.