141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hans ræðu. Hann þekkir vel til á þessu málasviði, byggðamálunum, eftir langa reynslu af störfum í þinginu. Engum blöðum er um það að fletta að ýmsar áleitnar spurningar vakna þegar Byggðastofnun og sú skipan mála öll er annars vegar og þá kannski ekki síst þegar í húfi eru spurningar sem lúta að tengslum stjórnmálanna eða pólitíkurinnar annars vegar og lánafyrirgreiðslu og slíkum hlutum hins vegar og stöðu ráðherrans í því.

Það er áleitin spurning hvort ekki sé ákaflega óheppilegt að ráðherrann eða ráðuneytið komi með beinum hætti að ákvörðunum um einstakar lánveitingar þó að það sé í formi úrskurðaraðila í áfrýjunum og hvort ekki fari best á því, ef ríkisvaldið er á annað borð að standa í þessari lánastarfsemi, að það sé þá bara gert á grundvelli almennra reglna sem hafa verið settar í eitt skipti fyrir öll af hálfu ráðherrans.

Þetta vekur líka spurningar almennt um lánastarfsemina í Byggðastofnun og hversu farsællega hún hefur reynst. Því miður hefur þar verið gríðarlega mikið útlánatap. Það er kannski hin spurningin, sem rétt er að beina til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, hvort hann telji ástæðu til að halda þessari starfsemi áfram meira eða minna með svipuðum hætti eins og verið hefur í gegnum árin.