141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom að því í ræðu minni áðan að ég hef alveg skilning á þeim sjónarmiðum sem liggja að baki frumvarpinu, að það kunni að vera mikil þraut fyrir eitt ráðuneyti að fá hugsanlega yfir sig dembu af málum sem fólk hefur verið óánægt með afgreiðslu á í tiltekinni stofnun. Þá vakna spurningar: Hvað er það sem viðkomandi ráðuneyti getur tekið afstöðu til? Er það spurning um lánaupphæðina til dæmis eða er það spurning um hvort réttilega hafi verið staðið að málum? Er það spurning um hvort menn hafi fengið möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri? Og þannig mætti áfram telja. Ég hefði haldið að það væru einhverjir slíkir hlutir sem ráðuneytið í þessu tilviki gæti tekið afstöðu til, hvort eðlilega og lögformlega hafi verið staðið að málum.

Ég hef alveg skilning á því að þetta kunni að vera óheppilegt og vísa líka til þeirrar þróunar sem hefur orðið. Íbúðasjóðslánveitingarnar hrúgast ekki upp á borð hæstv. velferðarráðherra og þannig má áfram telja. Þannig að ég hef alveg skilning og samúð með því.

Það sem ég var einfaldlega að reyna að segja er það að mér sýnist að með þessu frumvarpi sé hins vegar kannski verið að ganga lengra en menn átti sig algjörlega á. Það er verið að breyta heilmikið um eðli stofnunarinnar. Hún er ekki lengur þessi sérstaka stofnun sem hún áður var. Hún verður miklu sjálfstæðari í eðli sínu og þá vakna bara spurningar um það hvort menn þurfi ekki að gera frekari breytingar á lögunum um stjórn Byggðastofnunar. Það er það sem ég var að velta upp.

Varðandi lánastarfsemina þá er ég eindregið þeirrar skoðunar að Byggðastofnun eigi að halda áfram lánastarfsemi sinni. Það er alveg rétt að útlánatöp hafa orðið hjá Byggðastofnun eins og hjá mjög mörgum lánastofnunum í landinu. Ef við bærum saman hins vegar útlánatöp Byggðastofnunar, sem lánar inn á svæði sem viðskiptabankarnir hafa í mörgum tilfellum ekki treyst sér til að lána inn á, þar sem hagvöxtur hefur til dæmis verið neikvæður þó að hann hafi verið jákvæður í landinu í heild, þá er það nú þannig að töp Byggðastofnunar eru hlutfallslega mun minni en töp stóru viðskiptabankanna voru í hruninu. Það finnst mér nú bara vera til marks um dálítið afrek.