141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur kærlega fyrir ræðu hennar hér. Ég hef áhuga á að spyrja hv. þingmann þar sem ég veit að hún þekkir vel til aðstæðna, sérstaklega í Norðausturkjördæmi, því að hún spyr hæstv. ráðherra hverjar hugmyndir hans séu, hvaða skoðun hún hafi til dæmis á þeim tillögum sem þingflokkur framsóknarmanna hefur lagt til, að beita frekar skattkerfinu að norskri fyrirmynd til að styðja við þær byggðir sem njóta ekki sömu lánafyrirgreiðslu eða sama jafnræðis innan bankakerfisins og einstaklingar eða fyrirtæki sem eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu.

Í Noregi hafa norsk stjórnvöld veitt bæði einstaklingum sem hafa ákveðið að flytja norður fyrir ákveðin mörk og fyrirtækjum sem staðsetja sig þar ákveðnar skattaívilnanir. Þar með er tekið fyrir það sem verið er að gefa í skyn hér, þ.e. ákveðna pólitíska fyrirgreiðslu. Þar er það ákvörðun einstaklinganna sjálfra sem gerir að verkum að til kemur ákveðinn stuðningur frá hinu opinbera en ekki þannig að stjórnmálamenn taki ákvarðanir um hverjir eigi að fá lán og hverjir ekki.