141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér fyrr í dag áttum við ágæta umræðu um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir. Það var mjög góð umræða og þörf. Hér er einmitt verið að ræða um slíkt ríkisfyrirtæki, eða fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins.

Ég spurði áðan um ríkisábyrgð á útlánum Byggðastofnunar. Þann 18. nóvember 2010, klukkan 14.10, svaraði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, í andsvari við mig þegar ég spurði um ríkisábyrgð á innstæðum, með leyfi forseta:

„Innstæðurnar eru annars eðlis og hv. þingmaðurinn hlýtur að þekkja það vegna þess að margbúið er að ræða það hér á þingi, alveg frá því í október, nóvember 2008. Þar er um pólitíska stefnumarkandi yfirlýsingu stjórnvalda að ræða, ekki ríkisábyrgð í skilningnum ríkisábyrgðarlög eða annað í þeim dúr.“

Þetta er það sem ég hef haldið fram. Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“ Ef ríkisábyrgð ætti að vera á Byggðastofnun, Íbúðalánasjóði, innstæðum og svo framvegis þá yrði að geta um það og upphæðina í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það hefur ekki verið gert. Ekki hefur verið sagt að öll útlán eða skuldabréf sem Byggðastofnun gefur út séu með ríkisábyrgð af tiltekinni upphæð. Það stendur ekki í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það hef ég ekki séð, ekki heldur að þeir 800 milljarðar sem Íbúðalánasjóður skuldar séu í fjárlögum eða fjáraukalögum og heldur ekki að þeir rúmlega 2 þús. milljarðar sem eru innstæður í bankakerfinu séu með ríkisábyrgð, hvað þá að Seðlabankinn geti búið til ríkisábyrgðir eins og honum dettur í hug.

Ég tel brýnt, frú forseti, af þessu tilefni að menn skoði ríkisábyrgðir yfirleitt og hvað við erum að gangast í ábyrgð fyrir, fyrir börnin okkar. Það vantar til dæmis umræðu um ríkisábyrgð á B-deild LSR, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þar eru 400 milljarðar. Ég vil að þetta verði rætt þannig að þeir sem eiga kröfur á Byggðastofnun, þeir sem eiga innstæður í bönkum og þeir sem eiga kröfur á Íbúðalánasjóð séu þess meðvitaðir að þar sé ríkisábyrgð samkvæmt fjárlögum eða fjáraukalögum eða að þar sé ekki ríkisábyrgð og þá muni þeir hegða sér í takt við það.