141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:43]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég nefndi í sambandi við mögulegan aðskilnað lánastarfseminnar annars vegar og annarra þátta hins vegar var eingöngu að sú hugmynd hefur oft komið upp. Ég var ekki að boða það sem mína afstöðu en það er eitt af því sem menn hafa velt fyrir sér og skoðað. Þá gæti það auðvitað verið á því formi að stuðningur ríkisins væri fólginn í einhvers konar ábyrgð á lánum sem aðrir aðilar önnuðust síðan um að veita og sýsla um, eins og sparisjóðir eða fjármálafyrirtæki á viðkomandi landsvæðum. En allt fyrirkomulag af þessu tagi hefur ábyggilega sína kosti og galla og menn gætu líka sagt að ríkið tæki þá ábyrgð á einhverju sem það væri svo ekki sjálft með í sínum höndum og það kynni líka að reynast vandasamt fyrirkomulag.

En það er eitt af því sem hefur verið rætt og út af fyrir sig gæti Byggðastofnun, þó hún hefði sitt hlutverk, komið þessu þannig fyrir með samningum við fjármálastofnanir, að hún nýtti sér í meira mæli þjónustu þeirra í héraði til dæmis. Í einhverjum tilvikum held ég að það sé nú ágætissamstarf þar sem Byggðastofnun er með fleiri fjármálafyrirtækjum í fjármögnun verkefna af þessu tagi.

Varðandi síðan rannsóknir og stefnumótunarþáttinn og annað í þeim dúr, ég held að það væri tvímælalaust áhugavert að háskólar og fræðasamfélagið væri virkjað meira í þessum efnum. Byggðamálin hjá okkur hafa kannski verið — ég vil nú ekki segja olnbogabarn en alla vega verður að horfast í augu við það að árangurinn af stefnu stjórnvalda á Íslandi í þessum efnum undangengna áratugi er auðvitað ekkert allt of glæsilegur þegar við horfum einfaldlega til þess að við búum enn við það ástand á tilteknum svæðum að þar hefur verið fólksfækkun og neikvæður hagvöxtur og allt í þeim dúr. Sumir ganga nú meira að segja svo langt að segja að á Íslandi hafi í raun og veru aldrei verið til og sé ekki rekin (Forseti hringir.) nein eiginleg, heildstæð, markviss og árangursrík byggðastefna.