141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:46]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það má nokkuð til sanns vegar færa enda afleiðingin af því að tæplega 2/3 landsmanna búa hér á einu svæði, (Gripið fram í.) í og við höfuðborgina. En þar verða margir að líta í eigin barm sem lengi hafa komið að stjórn landsins í skilningi flokka.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um skattaívilnanir vegna byggðar á jaðarsvæðum hef ég oft og lengi velt því máli fyrir mér. Ég hef ekki verið hrifinn af hugmyndum um að menn gerðu beinan mismun í tekjuskattsgreiðslum eða öðru slíku, einfaldlega vegna þess að ég vil frekar nálgast málið frá sjónarhóli landsbyggðarinnar á þeim forsendum að þar borgi menn sína skatta og leggi sitt af mörkum til þjóðarbúsins, eins og þeir gera svo sannarlega eins og hverjir aðrir, en eigi auðvitað rétt á þjónustunni á móti. Það útilokar ekki að einhverjar sértækar aðgerðir, til dæmis til að hvetja ungt menntafólk til að taka sér búfestu á landsbyggðinni með afslætti af námslánum, gætu komið til greina.

Ef við vildum draga úr aðstöðumun í skattalegu tilliti fyrir jaðarsvæðin væri beittast að fara í gegnum virðisaukskattskerfið. Þar eru efnisleg rök til að (Forseti hringir.) hafa hann lægri eða að endurgreiða hann með einhverjum hætti vegna þess að viðisaukaskattur, sem leggst ofan á flutningskostnað og fleira, er þyngri (Forseti hringir.) en hann er annars staðar í landinu. Ef ég ætti að nefna eitthvað eitt þar sem blasir við að (Forseti hringir.) sanngjarnt sé að gera hliðarráðstafanir væri það í virðisaukaskattskerfinu.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hæstv. ráðherra og þingmanna að þeir virði ræðutímann.)