141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[16:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið mælt fyrir enn einni evrópsku réttarbótinni fyrir almenning á Íslandi og er það fagnaðarefni að hæstv. ráðherra gengur lengra í útfærslu sinni en kveðið er á um í hinni evrópsku tilskipun að nauðsynlegt sé. Það er ástæða til þess að lýsa ánægju með það.

Ég fagna sérstaklega þeim breytingum sem hæstv. ráðherra gerir til að koma loksins lögum yfir smálánafyrirtækin sem löngu er tímabært. Hér er loksins inni ákvæði sem setur skorður þeirri okurlánastarfsemi sem farið hefur fram á vegum smálánafyrirtækjanna og fjölmargir einstaklingar, oft og tíðum fólk sem stendur höllum fæti fyrir, hafa því miður orðið fyrir barðinu á. Þess vegna er löngu tímabært að löggjafinn grípi inn í. Hér er lagt til hámark 50% plús stýrivextir. Ég skil það á máli hæstv. ráðherra að það sé langt gengið miðað við önnur lönd Evrópu, að aðeins eitt land gangi lengra.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort til greina hafi komið að horfa til dráttarvaxta vegna þess að við setjum reglur um leyfilega dráttarvexti þegar lán til einstaklinga eru í vanskilum. Ég hef alltaf átt ákaflega erfitt með að skilja hvernig það geti verið löglegt að innheimta hærri vexti af lánum sem eru í skilum, eins og gert hefur verið um smálánin, en innheimt er af lánum sem eru í vanskilum. Ég hef þess vegna velt því fyrir mér hvort dráttarvextirnir gætu verið hámark á vaxtatöku af einstaklingum. Þeirri starfsemi kynni þá að vera of þröngur stakkur skorinn, en ég vildi gjarnan heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um hvort hann teldi það vera of langt gengið. Eins vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvaða land það er sem gengið hefur (Forseti hringir.) lengra en 50% og hversu lágt þak þeirra er þá.