141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[16:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða ansi stórt mál, neytendalán hvorki meira né minna.

Það sem mér hefur fundist vanta í þau frumvörp og í þá umræðu sem hefur verið um þau frumvörp sem hafa komið á undanförnum missirum og hafa ekki verið kláruð um þennan mikilvæga málaflokk, er að menn eru kannski að eyða of miklum tíma og orku í að ræða um minnstu hlutina. Með fullri virðingu fyrir smálánum og raðgreiðslusamningum, sem ég vil nú ekki gera lítið úr, það skiptir máli að taka á þeim þáttum, þá eru þetta neytendalán og stóru lánin þar eru húsnæðislán og lán fjölskyldunnar. Þar eru stóru upphæðirnar og ljóst er að við höfum ekki, að mínu áliti, haft þá umgjörð sem við ættum að hafa um þá lánaflokka en þar erum við að tala um tugi milljóna.

Við vitum að það er ójafn leikur þegar kemur að því að einstaklingur tekur lán. Við erum annars vegar með stór og öflug fyrirtæki alla jafna og hins vegar fólk sem hefur ekki sérþekkingu á því sviði. Í ofanálag hefur mikið vantað upp á fjármálalæsi hjá íslensku þjóðinni og vonandi stendur það til bóta, því svo sannarlega er búinn að vera hér ansi dýr skóli að undanförnu.

Það er mín skoðun að við þurfum að breyta hlutum með þeim hætti að áhættudreifingin verði meiri og þá er ég að vísa til þess að lánafyrirtækin taki líka áhættu. Þeir aðilar sem lána fé verða líka að vera ábyrgir gerða sinna, ef þannig má að orði komast, að þeir geti ekki komist upp með að lána í hvað sem er og geti svo fengið það með einhverjum hætti til baka og er ég þá að vísa í marga hluti.

Til dæmis er kannski eitt stærsta einstaka vandamálið sú mikla ríkisábyrgð sem við erum með þegar kemur að lánamálum. Stærsta einstaka byrðin okkar þar er Íbúðalánasjóður. Ég veit ekki hvort fólk hefur áttað sig á því að þar er um að ræða fyrirtæki sem gerir svo sem ekkert annað en taka fjármuni, að stærstum hluta frá lífeyrissjóðum, og lána til húseigenda. Sá sem veitir lánið í rauninni, sá sem fjármagnar lánið, ber enga ábyrgð því að þetta hefur verið túlkað þannig núna, fram til þessa í það minnsta, að skattgreiðendur séu ábyrgir.

Þegar við erum búin að ganga frá fjárlögum, virðulegi forseti, höfum við sett 56 milljarða í Íbúðalánasjóð. Ef við berum það saman við ýmislegt annað, t.d. nýja spítalann, þá er það 2 / 3 af glænýjum spítala með nýjum tækjum. Þá er ég ekki að tala um 1. áfanga, ég er að tala um allt saman.

Ég velti fyrir mér, ég sé það ekki við yfirferð frumvarpsins, hvort ekki væri skynsamlegt að setja inn í frumvarpið einhvers konar lyklaákvæði, eins og í þau lyklafrumvörp sem hér hafa verið til umræðu, þannig að þeir sem fá lán hafi þann rétt að skila inn lyklunum þegar svo ber undir. Ég held að það yrði til þess að lánastarfsemi yrði mun ábyrgari. Ég tel að það yrði til þess að þeir sem lána til heimila, hvort sem það væri vegna bíla eða húsnæðis, væru ábyrgari í lánveitingum sínum.

Það mundi að vísu kalla á miklar breytingar að því leytinu til að fólk þyrfti þá alla jafna að vera með meira eigið fé þegar það færi út í fjárfestingar, en ég tel engu að síður að við eigum að breyta öllu kerfinu til að svo megi verða. Við höfum verið á kolrangri leið með lánveitingar okkar fram til þessa og húsnæðisstefnu, getum við sagt, sem ríkið hefur kannski mest skipt sér af þegar kemur að lánveitingu til einstaklinga og heimila.

Við höfum verið að ýta undir skuldsetningu með of háu lánshlutfalli og vaxtabótum. Í það hafa farið gríðarlegir fjármunir. Ef við deilum því til dæmis á þær upphæðir við fyrstu kaup einstaklinga þá hefðum við getað styrkt viðkomandi einstaklinga um milljónir kr., hverja þá fjölskyldu sem kaupir sér fyrsta húsnæðið þannig að það fólk hefði þá getað átt eitthvað í húsnæðinu í stað þess að hvetja það og ýta undir skuldsetningu. Það var vel þekkt hér áður að þeir sem voru að ráðleggja fólki í fjármálum bentu fólki á að það ætti að auka skuldir sínar til að fá vaxtabætur.

Ég held að við verðum að ræða þessi stóru mál þegar kemur að neytendalánum því að þetta er það sem vegur mest hjá heimilunum í landinu, þ.e. húsnæðislánin og bílalánin.

Ég tel að það skipti máli og sé mikilvægt að fólk hafi betri rétt í samningum við lánastofnanir sínar. Ég ætla ekki að úthúða lánastofnunum, það er ekkert unnið með því, ég er bara að segja að við þurfum að breyta hér leikreglum og við þurfum að breyta því hvernig þessi markaður hefur unnið og við þurfum að styrkja þar neytendavernd.

Ég sé að gert er ráð fyrir að Neytendastofa fái aukinn rétt, alltaf er verið að miða að því sem snýr að litlu lánunum, þ.e. lánamiðlurunum, raðgreiðslusamningunum, smálánunum og öðru slíku en ekki er tekið á stóru hlutunum. Við sem höfum setið í viðskiptanefnd, núna efnahags- og viðskiptanefnd, sjáum hvað eftir annað þegar kemur að neytendavernd á fjármálamarkaði að það er fullkominn frumskógur og er í skötulíki.

Talað hefur verið samfellt um þetta frá því ég settist í efnahags- og viðskiptanefnd á þessu kjörtímabili og enn er engin lausn komin á það eða réttara sagt ekkert frumvarp komið fram um einföldun á þessum þætti þannig að það verði algjörlega skýrt hvar neytendaverndin er á fjármálamarkaði. Það getur enginn haldið því fram að ekki séu settir inn nægir fjármunir í fjármálaeftirlit á Íslandi og því er það fullkomin hneisa að neytendavernd sé ekki betur skilgreind í þeim eftirlitsstofnunum sem við erum með. Það er fyrir neðan allar hellur, virðulegi forseti, að við séum ekki enn komin með mál núna á síðustu metrunum á þessu kjörtímabili til að ganga þannig frá að við séum með skýrar leikreglur þegar kemur að eftirliti fyrir heimilin í landinu á fjármálamarkaði.

Við þurfum ekki að leita langt til að sjá hvað það þýðir þegar þetta er ekki skýrt. Við getum til dæmis bara tekið gengislánin. Þar hafa heimili landsins ekki fundið skjól, eða mjög lítið, í því gríðarlega stóra eftirlitsbatteríi sem er til staðar á fjármálamarkaði á Íslandi.

Það hefur verið fullkomlega fyrir neðan allar hellur hvernig staðið hefur verið að því að gæta að stöðu og gæta hagsmuna þeirra sem tóku lánin, þ.e. erlendu gengislánin, og það er örugglega ein af ástæðunum fyrir því að við erum ekki enn búin að sjá fyrir endann á þeim málum og munum ekki sjá fyrr en í allra fyrsta lagi á næsta ári, þvert á þær yfirlýsingar sem gefnar voru af ríkisstjórn að við værum að sjá niðurstöður í þeim málum núna á haustmánuðum.

Virðuleg forseti. Ég tel að þetta sé algjört forgangsmál, þ.e. neytendalánin og neytendaréttur á fjármálamarkaði. Ég er tilbúinn til að gera allt hvað ég get sem nefndarmaður í hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að vinna þessa hluti eins hratt og vel og mögulegt er. En það vantar hluti í þetta, það vantar stóru hlutina í þetta mál og það er mjög dapurlegt vegna þess að við erum á síðustu metrunum á þessu kjörtímabili. Nú veit ég ekki af hverju það er, hvort pólitískan vilja vanti, ég mundi ekki ætla það miðað við hvað hefur verið sagt. Kannski er það vegna þess að búið er að hræra slíkt í stjórnkerfinu að það hefur haft slæm áhrif á afköst ráðuneyta og vandvirkni ráðuneyta, ég fullyrði það, og þykist nú þekkja nokkuð til. En við getum kannski lagað þetta.

Kannski getum við ef pólitískur vilji er til þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki frumkvæði í málinu og reyni að ganga þannig fram að við getum leyst úr þessu og klárað það núna á þessum vetri þannig að sómi verði að. Ég er í það minnsta tilbúinn til þess að leggja mitt af mörkum og ég er sannfærður um að hv. nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd eru það líka.