141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[17:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um neytendalán, frumvarp sem ég tel að sé mikillar skoðunar vert og þurfi að skoða vel í hv. nefnd. Menn hafa talað mjög fjálglega um að þetta muni bjarga skuldurum þessa lands þannig að allt verði viðráðanlegt og gott.

Undanfarið hefur mikið verið talað um verðtryggingu og allt fundið henni til foráttu, hún sé af hinu illa, og ég skil ekkert í mönnum að vera ekki búnir að afnema verðtrygginguna alveg, eins og ekkert sé. Þá kemur í ljós að fólk þarf að borga vexti af lánum og þá hafa menn horfið frá því. Ef menn eru ekki með verðbætur í þeim löndum sem við miðum okkur við eru þeir með breytilega vexti. Þeir breytilegu vextir fara eftir verðbólgu, það er svo merkilegt. Ef verðbólgan verður mikil telja menn óhæfu að stela frá sparifjáreigendum, í öðrum löndum reyndar, og reyna þá að halda innlánsvöxtum yfir verðbólgu þannig að sparifjáreigendur tapi ekki. Þeir tapa núna á Íslandi, eru búnir að gera það í tíu ár svona yfir heildina og tapa mikið en öllum virðist sama um það. Í staðinn fyrir verðbætur kæmu þá breytilegir vextir.

Vandamálið er ekki verðtryggingin heldur verðbólgan. Vandamálið er sveiflukennd verðbólga. Hér getur orðið verðbólguskot upp á 18% sem hreinlega rústar innstæðum og gerði það. Þær urðu allt í einu miklu minna virði. Maður sem hafði lagt fyrir andvirði eins bíls átti ekki lengur fyrir bíl. Núna þarf hann að leggja 1 millj. kr. til viðbótar ef hann ætlar að kaupa sér bíl sem hann gat keypt áður. Þetta er ekki talað um en ef það verður 20% verðbólga og menn ætla ekki að stela frá sparifjáreigendum eða lífeyrissjóðum sem eiga fjármagnið, sem reyndar eru svo að borga gamla fólkinu lífeyri, þá verða menn að taka 20% nafnvexti. Ég er hræddur um að heimilin í landinu hefðu farið á vonarvöl ef þau hefðu þurft að borga 20% nafnvexti af lánum, við skulum segja bara 20 millj. kr. láni. Þá er ég hræddur um að einhvers staðar hefði hrikt í stoðunum og heimilin farið á vonarvöl og orðið gjaldþrota. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Vandinn er sveiflukennd verðbólga, vandinn er peningastjórnin en ekki verðtryggingin. Verðtryggingin er neyðarúrræði og ég er engan veginn hlynntur verðtryggingu, ef einhver skyldi halda það, en hún hefur bjargað heimilunum sem skulda yfir þessa kreppu en ekki þeim sem eiga innstæður vegna þess að velflestir hafa ekki verðtryggða innstæðu. Ég held að 70–80% eigi óverðtryggðar innistæður og hafi orðið fyrir miklum skelli.

Sagan segir okkur að að sjálfsögðu hækka laun, fasteignir og annað slíkt í takt við verðbólguna, annað væri svakalegt. Ef launin mundu ekki halda nokkurn veginn í við verðbólgu, segjum í 10–20 ár, mundi fólk ekki hafa efni á því að kaupa bleiur, hveiti, brauð, kartöflur og því um líkt, fjölskyldan færi bara á vonarvöl. Launin hafa verið nokkuð í takt við verðbólguna og hækkuðu reyndar um 60% umfram verðbólgu minnir mig þegar Sjálfstæðisflokkurinn var einn við stjórn, ekki með neinum öðrum flokki, í 18 ár. Það var mikil lífskjarabót. Þá var lítið talað um verðtryggingu og miklu minni krafa um að afnema hana.

Það frumvarp sem við ræðum hér kemur inn á marga þætti. Til dæmis í f-lið 12. gr. er talað um að það eigi að koma fram í lánssamningi á skýran og hnitmiðaðan hátt um útlánsvexti, skilyrði um beitingu þeirra og, ef við á, um vísitölu eða viðmiðunarvexti. Það er verið að tala um að verðtryggingin skuli halda áfram og það er dálítið undarlegt miðað við allt talið um að afnema hana. Þarna stendur svart á hvítu að það eigi að miða við vísitölu.

Síðan hefur verið talað mikið um vandræði húseigenda og það með réttu. Íbúðaverð hefur hrunið. Það er ekki endilega verðtryggingin sem hefur valdið vandræðum heldur að íbúðaverð hrundi. Það gerði það svo sem víðar. Á Spáni hefur íbúðaverð hrunið og þar eru fjölskyldur í enn meiri vanda en hér. Íbúðaverðið hefur hrunið um allt að 50% og fólk sem tók 80% lán skuldar allt í einu miklu meira en það á. Það er í evrum, herra forseti. Það er ekki verðtryggingin sem er vandamálið heldur verðhrun á fasteignum, raunverðhrun á fasteignum, sem gerir það að verkum að menn skulda miklu meira en þeir eiga sem er afskaplega slæmt og það þyrfti að leiðrétta.

Frumvarpið tekur líka á svokölluðum smálánum sem mér finnst afskaplega dapurleg þróun, herra forseti. Ég sá á netinu að ef menn taka 10 þús. kr. lán og borga það eftir tíu daga borga menn 2.500 kr. í kostnað sem hægt er að flokka sem rekstrarkostnað eða sem vexti. Ef það er flokkað sem vextir og ef það gerist á 15 daga fresti allt árið þá erum við að tala um 22.000% vexti svo það sé á hreinu. Það er bara 1,25 í veldinu 360:15, það er mjög einfalt.

Ef annað fyrirtæki sem var með 1.450 kr. í vexti af 10 þús. kr. láni í tíu daga erum við að tala um 13.909% vexti þannig að þetta eru óskaplega dýr lán og mér finnst sorglegt að einhver skuli taka þau, herra forseti, að fjármálalæsi sé það lítið að einhver skuli taka svona lán. Mér finnst það dapurlegt og það er eitthvað að fjármálalæsinu ef menn skilja ekki hvað það þýðir að taka lán.

Það hefur verið talað um að lána veð. Ég varaði við því í bæklingi árið 1980 og eitthvað, þá var ég forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, að menn lánuðu veð nema reikna með að þurfa að borga af láninu sjálfir, en lánsveð hafa verið aðstoð foreldra við börnin sín til að þau gætu keypt sér stærra húsnæði en ella. Fólk sem ekki ræður við að kaupa stórt húsnæði ræður við það þegar foreldrarnir lána veð. Þetta er sem sagt aðstoð foreldra við börnin og það getur vel verið að menn vilji banna það, það getur vel verið að menn eigi að gera það.

Upplýsingar um aldur koma ekki fram í frumvarpinu. Það er fráleitt fyrir fertugan mann að taka lán, sérstaklega verðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára, því að hann borgar síðustu afborgunina þegar hann er áttræður. Þá er hann yfirleitt kominn á eftirlaun, lífeyri, og lífeyririnn er yfirleitt töluvert lægri en útborguð laun þannig að mér finnst að þegar menn tala um neytendalán ættu þeir líka að tala um að taka ekki lán sem þeir þurfa að borga af á ellilífeyrisaldri. Það er stundum allt að því óbærilegt að borga af þeim lánum.

Það er rætt um lyklafrumvarpið, að menn geti skilað eigninni. Eftir því sem kvaðirnar eru meiri, þeim mun erfiðara er að fá lán. Þetta frumvarp mun valda því að fjöldi fólks sem í dag fær lán fær það ekki eftir að búið er að samþykkja frumvarpið af því að það stenst ekki greiðslumat og það verður gerð krafa um meira eigið fé o.s.frv. Það getur vel verið að það sé ágætisstefna að þeir sem ekki hafa efni á að taka lán fái ekki lán, en ég er á því að það eigi að vera sem mest frelsi í þessu og þess vegna held ég að menn ættu að geta fengið lág lán til að kaupa litla íbúð. Ég er hlynntur séreignarstefnunni.

Það er lítið talað um yfirdráttarlán í frumvarpinu. Ég hefði talið eðlilegra að tala meira um þau. Það er óeðlilegt, herra forseti, að einstaklingar skuldi lán án gjalddaga. Það er óeðlilegt að menn skuldi einhvern opinn pott eins og yfirdráttarlán eru. Yfirdráttarlánin í öðrum löndum eru yfirleitt fyrir hlaupareikninga fyrirtækja, þ.e. fyrir fjármuni sem hlaupa út og inn, en það er óeðlilegt fyrir einstaklinga að skulda stöðugt yfirdráttarlán og eitthvað sem við ættum að reyna að vinna í. Það getur vel verið að hv. nefnd sem ég á sæti í geti farið vandlega yfir það hvort hægt sé að stefna að því að yfirdráttarlánahefðin hverfi hér á landi en mér skilst að lánin séu nánast óþekkt í öðrum löndum.