141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[17:13]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur orðið málefnaleg og góð og ég vænti mikils af því þegar hv. þingmenn taka málið til rækilegrar skoðunar. Góð orð eru höfð uppi um það að reyna að hraða afgreiðslu þess ef mögulegt er, þ.e. sérstaklega þannig að sá hluti sem snýr að margnefndum smálánum komist sem fyrst í lög.

Hv. þm. Helgi Hjörvar, og reyndar fleiri, nefndi lítillega þá spurningu hvort að að öllu leyti hefði verið fylgt eða litið til laga um neytendalán þegar fasteignalán voru flokkuð sem slík og átti þá sérstaklega við verðtryggð lán. Ég ætla ekki að gerast dómari eða spámaður um það hvort rétt sé að ganga svo langt að segja að slíkt hafi ekki verið gert en ég fullyrði þó að það hefði mátt gera betur í til dæmis upplýsingagjöf og miðlun til að reyna að draga upp skýra mynd af kostum fólks og tryggja að það hefði aðgang að eins góðum upplýsingum og mögulegt er um það hvers konar skuldbindingar það væri að takast á hendur. Í því tilviki er verið að reyna að gera úrbætur svo að menn eigi alltaf kost á því að bera saman ólík lánskjör og geti skoðað fráviksdæmi um til dæmis að verðtryggt lán taki breytingum árlega á grundvelli 3% verðbólgu.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi sérstaklega fasteignalánin og var nokkuð gagnrýninn á það fyrirkomulag sem hér hafði verið við lýði og taldi að menn hefðu með til dæmis háum lánshlutföllum og jafnvel að einhverju leyti skuldahvetjandi vaxtabótum, ef ég skildi hann rétt, ýtt fólki út á grátt svæði í þeim efnum. Ég skal ekki draga úr því að reynsla Íslendinga af þessum málum er ekki glæsileg, það verður að horfast í augu við. Þá finnst mér við vera farin að ræða hlut sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi aðeins í lokin á sinni ræðu, séreignarstefnuna í húsnæðismálum. Við höfum ekki bara verið með umgjörð að þessu leyti um lánin, og á köflum ábyrgðarlausar eða að minnsta kosti ábyrgðarlitlar ákvarðanir um það að fýra upp veðsetningarhlutföllum og jafnvel gylla fyrir fólki hversu gott það væri að taka lán og skulda, heldur höfum við á síðari árum rekið nánast hreina séreignarstefnu í húsnæðismálum og fólki hafa ekki staðið aðrir kostir til boða.

Það hefur ekki verið byggður upp leigumarkaður og það hefur ekki verið stuðlað að því með markvissri félagslegri stefnu í húsnæðismálum í 10–15 ár að fólki stæði eitthvað annað til boða en að fara út á markaðinn eins og hann er hverju sinni. Það ættu menn að hugleiða. Voru kannski gerð alveg ofboðsleg mistök í því félagslega íbúðakerfi sem þó var hér? Bæði með félagslegri eignastefnu, leiguíbúðum og fleiri ráðstöfunum var reynt að bjóða upp á valkosti til hliðar við hreina séreignarstefnu, sérstaklega kannski handa tekjulægri fjölskyldum og yngra fólki. Það markar auðvitað fasteignamarkaðinn á Íslandi og á sinn þátt í því að hrunið er okkur jafnerfitt og raun ber vitni þegar kemur að fjármálum heimilanna. Í raun og veru er kannski allt of mikið um það að fólk með tiltölulega lágar tekjur eða meðaltekjur reisi sér hurðarás um öxl á fasteignamarkaðnum af því að það sér enga aðra valkosti.

Ég hef hitt margt fólki sem á um sárt að binda eftir þetta hrun, til dæmis fólk sem kom heim úr námi akkúrat í miðri bólunni og þurfti að finna sér húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Hvað stóð því til boða? Það var ekkert annað að gera en að hella sér út í dansinn og kaupa með því sem því fylgdi, kaupa fasteignir á uppsprengdu verði þess tíma og lánamöguleika fyrir allt að 100% af veðsetningarmöguleikum húsnæðisins. Mér finnst að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hitti svolítið sjálfan sig fyrir þegar hann fjallaði um þann þátt málsins.

Spurt var hvort það væri nægjanlegt að færa fasteignalánin undir neytendalán eða hafa þau þar áfram. Nei, það kann að vera að svo sé ekki. Þess vegna hefur það verið til skoðunar í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu áður, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, hvort þurfi sérlög um fasteignalán sem setji tiltekinn ramma utan um þau og aðgreini frá öllum öðrum lánum vegna þess eðlis þeirra að þau eru stóra skuldbinding fjölskyldnanna þar sem þær setja heimili sín að veði. Þá kæmi alveg til greina að hafa tilteknar sértækar reglur sem skilyrtu alla sem veittu lán í þessu skyni að fara eftir og væru ákveðnar varnir um þennan lánaflokk sérstaklega, fasteignalán eða lán til íbúðakaupa með veði í íbúðinni. Þessi vinna er í gangi og það er ekki komin niðurstaða. Það eru bæði kostir og gallar við að fara þessa leið og menn geta spurt hvers vegna að vera með sérlög um þetta ef þetta er fellt undir neytendalán. Er það ekki nóg? Það er auðvitað verið að bíða líka, eins og komið hefur fram, eftir niðurstöðum í þessum efnum á evrópskum vettvangi sem við munum væntanlega þurfa að taka mið af. Ég vil bara halda því til haga og upplýsa það að þessi möguleiki er til skoðunar og kann vel að vera að hyggilegt sé að fara þá leið.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir spurði um uppgreiðslugjaldið og vísindin á bak við að það sé 1% þegar meira en ár er eftir af lánstímanum en 0,5% þegar skemmra er. Þetta er einfaldlega valið sem hófleg mörk, eitthvað sem menn töldu að væri ásættanlegt, að menn hefðu svigrúm upp að þessum þökum til að krefjast uppgreiðslugjalds. Þessu eru ekki bara settar þær skorður heldur eru allmargir flokkar lánveitinga, sem taldir eru upp í stafliðum a–e í 18. gr. undanþegnir möguleikum á uppgreiðslugjaldi, þ.e. ef greiðsla hefur átt sér stað samkvæmt vátryggingarsamningi sem ætlað er að tryggja greiðslu lánsins og þegar um er að ræða yfirdráttarheimild. Það er óheimilt að krefjast hvers konar uppgreiðslugjalds af yfirdrætti þótt hann sé að sjálfsögðu borgaður upp. Lán sem bera breytilega vexti eru næsti liður. Með öðrum orðum, ef vextirnir eru breytilegir eru engin rök fyrir því að lánveitandinn geti fengið uppgreiðslugjald til viðbótar þótt menn borgi lánið upp. Ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling láns af hálfu lánveitanda er d-liður, eða ef uppgreiðsla nemur lægri fjárhæð en 1 millj. kr. á ársgrundvelli sem er e-liðurinn. Öll þau tilvik eru undanþegin og það er ekki heimilt að leggja á uppgreiðslugjald við slíkar aðstæður.

Þar til viðbótar er að sjálfsögðu tekið skýrt fram að uppgreiðslugjald, hvort sem það væri 0,5% eða 1%, getur aldrei orðið hærra en ógreiddu vextirnir, þ.e. það sem eftir stendur eftir greiðsludag. Það setur líka þak á það, aldrei er borgað hærra gjald en sem því nemur.

Ég get tekið undir það, og það hefur verið rætt hér áður í sambandi við neytendaverndina og hvernig henni er fyrir komið, að æskilegt væri að geta eflt Neytendastofu. Það er fjallað um það í sambandi við kostnaðarumsagnir frumvarpsins, ef ég man rétt, og ég held að það verði ekki undan því vikist að horfa til þess. Ef málið fær góða afgreiðslu og þetta hlutverk Neytendastofu kemur til sögunnar í auknum mæli, til dæmis varðandi smálánin, er náttúrlega æskilegt að hægt væri að efla starfsemina með að minnsta kosti einu stöðugildi. Hvort það er framtíðarkostur að sameina hugsanlega Neytendastofu og Samkeppniseftirlit verð ég að játa að ég hef ekki beinlínis hugleitt það. Ég veit ekki hversu gott er að Samkeppniseftirlitið vegna síns mikilvæga og sterka hlutverks sé orðið rútínueftirlitsaðili gagnvart einhverjum þáttum af þessu tagi. Það eru líka viss sjónarmið og viss kostur að hafa það í því hlutverki sem það er í og engu öðru, hafa það sem allra sjálfstæðast og óháðast gagnvart starfsemi eða rekstri sem er í gangi, eðli málsins samkvæmt. Auðvitað er það rétt á hinn bóginn að þar væri öflugur aðili kominn til sögunnar sem gæti beitt sér á þessu sviði.

Ég held að ég hafi svarað þessu örlítið með fasteignalánin og lagarammann.

Varðandi lánsveðin hlýt ég að taka undir það sem hér hefur verið nefnt, það er auðvitað sorgarsaga og kemur harkalega í bakið á okkur þegar aðstæður koma upp eins og þær sem raun ber nú vitni. Ég tala ekki um þegar í hlut eiga aðilar sem hafa lánað út á lánsveð eins og lífeyrissjóðir sem telja sig ekki geta og ekki mega taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu fólks þótt í erfiðleikum sé svo lengi sem veðin eru gild og standa á móti kröfunni og/eða lánið sé yfir höfuð innheimtanlegt. Auðvitað verð ég að segja alveg eins og er að ég hef mikið velt fyrir mér hvort slíkir aðilar eigi að vera á smásölumarkaði með lánveitingar til dæmis til fólks vegna íbúðakaupa. Það leita á mig miklar efasemdir í þeim efnum. Ég ætla ekki að segja meira úr þessum ræðustól um það mál að svo stöddu.

Að lokum nefndi hv. þm. Pétur Blöndal það sem auðvitað er alveg rétt og ef við ætlum að vera heiðarleg og ærleg í þessari umræðu verðum við líka að horfast í augu við það, þ.e. ef við erum annars vegar að setja lánveitingum verulega strangar skorður, leggja miklar kvaðir á lánafyrirtækin og þrengja verulega möguleika fólks til að fá lán, þá hefur það líka áhrif. Það ýtir þá væntanlega ýmsum út af borðinu hvað varðar einfaldlega möguleika á því að ráðast í fjárfestingu og fasteignakaup svo dæmi sé tekið. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Einhvers staðar liggur eitthvert meðalhóf í þessum efnum. Ég held að við séum öll sammála um það í þessum sal, eða ég trúi því, að menn rötuðu ekki þann meðalveg á árunum fyrir hrunið og vantaði mikið upp á, þeir fóru fram úr sér á allan hátt. Stórkostlegar veilur litu þá dagsins ljós í framgöngunni að þessu leyti. Ef við förum mjög langt yfir í hitt borðið og setjum því mjög miklar skorður hvað fólk megi skuldsetja sig mikið, það megi ekki nota lánsveð, það verði að eiga svo og svo hátt eiginfjárhlutfall ef það á að fara í gegnum greiðslumat eða lánshæfismat o.s.frv., þá held ég að við verðum aðeins að endurskoða húsnæðisstefnuna og aðstæðurnar á fasteignamarkaði og gyrða okkur í brók hvað varðar það að bjóða fólki upp á einhver önnur úrræði, á leigumarkaði, í búseturéttarúrræðum eða með öðrum slíkum hætti.